þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óbreyttur loðnukvóti

18. febrúar 2016 kl. 16:48

Loðna

Minna mældist í seinni yfirferð rannsóknaskipanna.

Hafrannsóknastofnun leggur ekki til breytingar á áður útgefinni ráðgjöf um aflamark í loðnu. Þetta er niðurstaða seinni lotu loðnumælinga sem nýlokið er. Kvóti íslensku skipanna verður því 100 þúsund tonn eins og áður var ákveðið. Á vef Hafró hefur verið birt eftirfarandi greinargerð um loðnumælingarnar. 

„Vetrarmæling á loðnustofninum fór fram á rannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni dagana 1. – 17. febrúar 2016 með það að markmiði að endurmeta stærð veiðistofns loðnu. Áður hafði verið farið á Árna Friðrikssyni til vetrarmælingar dagana 3. - 21. janúar. Haldið var aftur til mælinganna með aðkomu hagsmunaaðila sem þátt tóku í fjármögnun leiðangursins.

Rannsóknasvæðið

Rannsóknasvæðið var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, vestur með Norðurlandi og allt að sunnanverðum Austfjörðum. Veður hamlaði mælingum mikinn hluta tímans sem skipunum var haldið úti, en tvær yfirferðir náðust fyrir austan land þar sem mest var af loðnu. Sú fyrri fór fram dagana 3. - 9. febrúar, að mestu á Bjarna Sæmundssyni frá Austfjörðum norður um og allt vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg þar sem við tók yfirferð Árna Friðrikssonar vestur í Grænlandssund. Síðari yfirferðin náðist dagana 10. - 16. febrúar, í upphafi á báðum rannsóknaskipunum en 12. febrúar hætti Bjarni þátttöku vegna annarra verkefna og mælingin kláruð á Árna Friðrikssyni ásamt því að grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq aðstoðaði við leit og afmörkun rannsóknasvæðisins.

Loðna fannst aðallega fyrir Austurlandi, en einnig dreift með landgrunnsbrúninni vestur með Norðurlandi og allt vestur í Grænlandssund en þar var loðnan að miklu leyti ókynþroska.

Minna mældist í seinni mælingarlotunni

Um 500 þúsund tonn af kynþroska loðnu (um 23 milljarðar fiska) mældust í fyrri yfirferðinni dagana 3. - 9. febrúar, sem er nokkru minna en mældist í janúar þegar um 675 þúsund tonn mældust jafnvel þó tekið sé tillit til veiða og afráns. Mun minna mældist í síðari yfirferðinni enda veðurskilyrði verri á meðan á henni stóð. Ennfremur er þekkt að erfiðlega gengur að mæla loðnu þegar styttist í og eftir að hún gengur upp á grunninn til hrygningar. 

Í ljósi niðurstaðna úr leiðangrinum sem og veiða og afráns frá því að mælingar fóru fram í janúar, auk þess sem að veður hamlaði rannsókninni ítrekað, leggur Hafrannsóknastofnun ekki til breytingar á áður útgefinni ráðgjöf um aflamark.“