laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Oddi á Patreksfirði lokar vegna hráefnisskorts

3. júlí 2008 kl. 17:05

Engin vinnsla verður hjá fiskvinnslunni Odda á Patreksfirði í sumar vegna hráefnisskorts. Vinna var lögð niður um miðjan júní og hefst vinnsla ekki á ný fyrr en í byrjun september.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Bestu á Ísafirði.

Að sögn Sigurðar Viggósonar, framkvæmdastjóra Odda, er ástæðan fyrir lokunum niðurskurður stjórnvalda á kvóta.

„Það er auðséð að þegar skorið er niður um 33% þá hlýtur það að hafa einhvers konar áhrif. Við reyndum að keyra þetta á leigukvóta en þegar verðið á honum er svona í skýjunum gengur það engan veginn til lengdar“, segir Sigurður í samtali við vefinn bb.is

Fiskvinnslan Oddi er langstærsti vinnustaður Patreksfjarðar en hjá fyrirtækinu starfa um 70 manns.

Sigurður segir að það hafi verið vitað í einhvern tíma að til lokanna kæmi og margir starfsmenn hafi getað gert einhverskonar ráðstafanir fyrir sumarið. Þetta hafi þó áhrif á bæjafélagið í heild sinni með minnkuðu tekjuflæði, en það sé engum til góðs þegar engin vinnsla er í gangi og sjómenn í landi.

„Eftir niðurskurð síðustu ára hlýtur þorskstofninn að vera að taka við sér. Ef hafró fer ekki að mæla með auknum heimildum hlýtur fólk nú að fara að hætta að taka mark á þeim, ríkisstjórnin verður þá bara að taka af skarið“, segir Sigurður, „Þetta er auðvitað erfiðast fyrir sjávarþorpin enda erum við háð þorskinum og við verðum að fá meiri aflaheimildir en við fáum nú“.

Sigurður spáir því að hlutirnir eigi eftir að versna nema auknar verði veiðiheimildir á ný.

„Ég sé fyrir mér að næsta ár verði enn verra og lokanir verði enn lengri nema eitthvað verði gert. Við náðum að þrauka fram í miðjan júní í ár en það gerum við ekki á næsta ári“, segir Sigurður.

Að hans sögn hafa mótvægisaðgerðir stjórnvalda ekki hjálpað sjávarútveginum, „Það fer peningur í einhver einstök verkefni en það hefur lítil áhrif á sjávarútveginn“.