þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Öflugu fiskeldisnámi verði komið á laggirnar

13. maí 2020 kl. 14:35

Laxeldi í Arnarfirði.

Skýrsla frá Háskólanum á Akureyri um fiskeldisnám á Íslandi hefur verið afhent sjávarútvegsráðherra.

Lagt er til að komið verði á laggirnar öflugu námi í fiskeldi með samfellu í námi frá framhaldsskóla í háskóla í nýrri skýrslu sem Háskólinn á Akureyri vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem hefur nú verið afhent sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Sagt er frá þessu í tilkynningu frá ráðneytinu sem óskaði eftir því að unnin yrði óháð úttekt á námi í fiskeldi á Íslandi, gerður  yrði samanburður við nám á þessu sviði í nágrannalöndum Íslands og lagðar fram tillögur um hvað þyrfti að gera til að geta boðið fram nám á þessu sviði.

Í skýrslunni eru einnig lagðar fram tillögur um hvernig auka megi nám í fiskeldi bæði á framhalds- og háskólastigi til að koma til móts við atvinnulífið með auknu og endurbættu námsframboði.

Þar á meðal er tekið fram að mikilvægt er að framhaldsskólar þrói og auki framboð á námi fyrir starfsmenn í fiskeldi. Lagt er til að ráðinn verði verkefnastjóri vegna náms í fiskeldi á framhalds- og háskólastigi og að verkefni hans væru m.a. að leiða starfshóp við útfærslu námskrár og áfangalýsinga svo og frekara skipulags námsins. Einnig er lagt til að skipað verði fagráð um nám í fiskeldi á Íslandi.