þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ofurfæði fyrir elskendur

4. febrúar 2016 kl. 15:00

Ostrur eru girnilegur réttur.

Sala á ostrum fjórfaldast í Skotlandi vikuna fyrir Valentínusardaginn

Sala á ostrum rýkur jafnan upp fyrir Valentínusardaginn. Skoskir ostruframleiðendur búa sig nú undir þetta sölutímabil enda vita þeir að ostrur eru hin girnilegasta fæða fyrir elskendur, að því er fram kemur í frétt á vefnum FishUpdate.

Venjulega selja skoskir ostruframleiðendur 35 þúsund ostrur á viku en vikuna fyrir Valentínusardaginn í fyrra seldust 160 þúsund ostrur. Búist er við að salan vikuna fyrir dag elskenda verði ekki síðri að þessu sinni en Valentínusardaginn verður 14. febrúar í ár. 

Ostrur eru ekki aðeins ljúffengar heldur orkusnauðar og ríkar af bætiefnum, svo sem vítamínum, járni, kopar og sinki. Vísindin segja að sinkið geti hugsanlega örvað karlmenn til dáða.

Lengi hefur því verið trúað að ostrur séu ofurfæði fyrir elskendur. Sú saga er á kreiki að elskhuginn Casanova hafi sporðrennt 50 ostrum í morgunmat á hverjum degi, segir ennfremur á FishUpdate.