sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ofveiði ástæðan fyrir fjölgun marglytta

10. maí 2013 kl. 13:43

Marglytta.

Afræningjum fækkar og fleiri marglyttur „komast á legg“

 

Marglyttur eru víða plága og ofgnótt af marglyttum í flestum heimshöfum er rakin til ofveiða á mörgum nytjafiskum sjávar, samkvæmt nýrri rannsókn franskra vísindamanna. Þetta kemur fram á vefnum fis.com.

Túnfiskurinn er eitt þeirra sjávardýra sem leggja sér marglyttur til munns. Hann hefur lengi verið ofveiddur og því þurfa marglyttur ekki að óttast þennan afræningja eins og áður. Ýmsar tegundir uppsjávarfiska eru einnig ofveiddar. Uppsjávarfiskar lifa á örsmáum svifdýrum líkt og marglyttan og samkeppni um fæðuna hefur þar af leiðandi minnkað. Loks má nefna að margir fiskar éta egg og lirfur marglyttunnar. Ef fiskum fækkar í vistkerfinu komast fleiri marglyttur „á legg“.

Vísindamenn hafa áhyggjur af þessari röskun í vistkerfinu. Marglyttur éti nefnilega fisklirfur og fjölgun marglytta geti seinkað því að hægt verði að byggja upp fiskstofna. Marglyttur hafi þannig lagt undir sig svæði þar sem áður voru blómlegar fiskveiðar. Vísindamenn benda á að á svæði sem þeir rannsökuðu í Namibíu hafi 10 milljónir tonna af sardínum vikið fyrir 12 milljónum tonna af marglyttum.