sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ofveiði bitnar hart á nílarkarfa

7. september 2009 kl. 15:27

  Ofveiði á nílarkarfa undanfarinn áratug hefur bitnað hart á ástandi hans. Versnandi efnahagur í heiminum ásamt aukinni samkeppni við aðrar ódýrari hvítfisktegundir hafa þó haldið verði á nílarkarfa niðri þrátt fyrir minnkandi framboð.

Nílarkarfi veitti íslenskum fiski mikla samkeppni um tíma á mörkuðum í Evrópu. Nú hefur stofn nílarkarfa minnkað úr 1,9 milljónum tonna árið 1999 niður í 370 þúsund tonn árið 2008. Veiðar á nílarkarfa og framleiðsla afurða hefur dregist saman um 50% á sama tíma.

Minnkandi eftirspurn og aukin samkeppni frá tegundum eins og tilapia og pangasius eru þó aðalástæðan fyrir því að útflutningur á nílarkarfa hefur dregist jafnmikið saman sem raun ber vitni. Útflutningur á nílarkarfa frá Kenía, Tanzaníu og Úganda til ESB-ríkja minnkaði úr 11.700 tonnum á fyrsta ársfjórðungi 2008 niður í 8.800 tonn fyrir sama tímabil í ár. Árið 2007 nam þessi útflutningur 52.800 tonnum en fór niður í 42.300 tonn árið 2008.

Verð á nílarkarfa hefur einnig lækkað. Í síðasta mánuði fengust 6,20 evrur (1.120 krónur íslenskar) fyrir kílóið af nílarkarfaflökum samanborið við 7 evrur fyrir ári síðan.

Samdráttur í sölu á nílarkarfa til Evrópu hefur leitt til þess að kaupendur á Bandaríkjamarkaði eiga nú greiðari aðgang en áður að þessari vöru og hefur sala þangað aukist.  

Heimild: SeafoodSource.com