sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„..og jafnvel drekkja mönnum”

7. júní 2018 kl. 14:35

Gallharðir franskir sjómenn með Gauloise í munnvikunum.

Franskir sjómenn á Íslandsmiðum á NORDIA 2018

 

„Hvar er vernd Dana þegar frakkneskir fiskimenn ræna hér og rupla og jafnvel drekkja mönnum? Hvar var vernd Dana í fyrra þegar frakkneskur herskipsforingi gekk um sem almennur spellvirki og þjófur — hér í augsýn sjálfs höfuðstaðarins?” spurði Alþingismaðurinn Jón Ólafsson í reiðilestri sem hann birti í Fjallkonunni árið 1879. Veiðar franskra skipa við Íslands var stórfelld um margra áratuga skeið og iðulega var neikvæð umfjöllun um þær í íslenskum blöðum á 19. öld, þó svo að samskipti almennings við Frakkana virðist almennt hafa verið skikkanleg.

Á safnarasýningunni NORDIA 2018 í TM-höllinni í Garðabæ næstu helgi, 8.-10. júní, má sjá á annað hundrað póstkorta og mynda sem tengjast þessu merkilega tímabili í sögu Íslands, en þeim hefur Árni Gústafsson, framkvæmdastjóri, safnað um langt skeið. Franska safnið inniheldur m.a. gömul bréf til franskra sjómanna og líka bréf sem þeir sendu heim, póstkort með myndum teknum í bæjunum sem sendu skip til Íslands, myndir sem sýna frönsku sjómennina og skúturnar, auk mynda af íslensku landslagi og þjóðlífi á umræddum tíma

Harðneskja og rómantík

Veðurbarnir sjómenn á þilfari, skip með vind í seglum bera við himinn, áhöfn stendur alvörugefin við slorug net, grátbólgin eiginkona með barn í fanginu kveður mann sinn áður en hann leggur í hættuför á Íslandsmið, þorpsbúar bíða á bryggju eftir að dugga sigli inn dekkhlaðin þorski. Allt eru þetta dæmigerð myndefni á frönskum póstkortum sem gefin voru út í Frakklandi á 19. öld og fram á þá tuttugustu, myndefni sem endurspeglar annars vegar harðneskjuna sem sjómenn á veiðum á fjarlægum og vályndum fiskimiðum bjuggu við, og hins vegar rómantíska yfirbragðið sem landkrabbarnir gáfu þeim gjarnan.

Um 1860 voru skip franskra Flandrara og Bretóna við Íslandsstrendur orðin 210 talsins með tæplega 3.300 sjómenn, og rúmum tuttugu árum síðar fóru skipin yfir 300. Heildarfjöldi franskra sjómanna á Íslandsmiðum á þessu tímabili var yfirleitt 3.000–5.000 árlega og allt upp í 6.000 manns. Hættur voru auðvitað á hverju strái og áætlað er að allt að 400 franskar skútur hafi farist við Ísland með 4000-5000 sjómenn um borð á tímabilinu 1825-1910. Blóðtakan fyrir litlu hafnarbæina hefur verið gegndarlaus oft á tíðum.

„Veðrið hefur verið mjög slæmt allan tímann”

Mennirnir lifðu og hrærðust í þröngum skipunum við kröpp kjör, kulda, vosbúð og mikla vinnuhörku í öllum veðrum og sjógangi. Á NORDIA 2018 má finna eina bréfið frá frönskum sjómanni sent frá Íslandi sem er í einkaeigu, en þar má lesa að vistin hefur verið misgóð í skipunum. Bréfið er frá skipstjóra að nafni Morvan til kaupmanns í Saint Brieuc, og hljómar svo í lauslegri þýðingu:

Ísland 16. júní 1867

Herra Bigot

Ég kom til Ísland 17. maí eftir langa og erfiða ferð. Ekkivar vindur hagstæður meðan á ferðinni stóð, fengum við illt veður og lentum í miklum hrakningum.Veðrið hefur verið mjög slæmt allan tímann sem er ekki gott fyrir veiðarnar. Ég hef um borð 8000 þorska, og vegna veðurs fiskast ekki vel. Ef veðrið lagast og verður gott í lok tímabilsins og það verður nóg af þorski, þá fer ég ekki af stað heim fyrr en í kringum 10. eða 15. september. Áhöfnin er góð. Með einlægustu kveðju, Þinn tryggi Morvan skipstjóri.

„Það eru þekktar heimildir um að sjómennirnir hafi beðið Íslendinga um að taka við bréfum sem þeir ætluðu að senda heim til Frakklands og greitt fyrir með kexi,” segir Árni. „Einnig gátu sjómennirnir komið bréfum heim með frönskum flutningaskipum sem komu um miðja vertíð til að ná í aflann. Morvan skipstjóri skrifaði bréfið væntanlega um borð í skútu sinni þann 16. júní 1867, og hefur hann komið bréfinu frá sér við fyrsta tækifæri.”

Þó svo að Frakkar hafi beitt seglskipum sínum á Íslandsmið í hið minnsta þrjár aldir var það ekki fyrr en á 19. öld sem ásókn þeirra jókst til muna. Umfangsmestar voru þær frá um 1850 fram undir fyrri heimsstyrjöld. Skipin og áhafnir þeirra voru frá bæjum á norðurströnd Frakklands, þorri þeirra frá Dunkerque og Paimpol, en einnig má nefna þorp á borð við St. Brieuec, Binic, Gravelines, Fécamps, Calais og St. Malo. Lítið var um eftirlit af hálfu Dana með veiðunum og freistuðust sumir frönsku skipstjórarnir fyrir vikið til að fara sínu fram með frekju og yfirgangi. Þetta hleypti vitanlega illu blóði í Íslendinga og voru margar demburnar sem danskir fengu fyrir að verja ekki íslenska hagsmuni betur en raun bar vitni.

Allar tekjur Íslands í 93 ár

Mikil verðmæti voru í húfi og gekk Frökkum vel að nýta sér þessa gjöfulu auðlind án þess þó að Íslendingar bæru sérstaklega mikið úr býtum. Ólafur Davíðsson náttúrufræðingur áætlaði árið 1886 að á sextán ára tímabili, 1868-1883, hefðu Frakkar veitt þorsk við Ísland fyrir 80 milljónir króna á verðlagi þess tíma. „Það er jafnmikið og allar tekjur Íslands í 93 ár,” sagði Ólafur og lá mikið niðri fyrir enda vildi hann þilskipavæða íslenska útgerð hið fyrsta, en þá voru aðeins á sjöunda tug þilskipa í eigu Íslendinga. Aflabrögðin voru líka mismunandi eins og fram kemur í Fréttum frá Íslandi 1886: „Þilskipa-þorskveiðin gekk líkt og og árið áður, því að fiskur var nógur fyrir; þó öfluðu íslensk þilskip miklu miður enn frönsk, eins og áður hefir verið, og að jafnvel svo, að helmingi munaði alloft.”

Seinasta áratug 19. aldar fór frönskum skipum við veiðar hér fækkandi og frá og með 1897 voru þau alltaf færri en 200 talsins. Veiðarnar lögðust nær alfarið niður í fyrri heimsstyrjöld og náðu aldrei máli eftir hana.

 

.