sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ógnarstór slysaslepping

14. júlí 2018 kl. 08:00

Sjókví Cooke Aquaculture við Cypress-eyju skammt frá Seattle í Washington.

Um 900.000 laxar sluppu frá eldisstöð Marine Harvest í Síle

Nú liggur fyrir að um 900.000 laxar sluppu frá sjókvíaeldisstöð norska laxeldisrisans Marine Harvest ASA í suðurhluta Síle í síðustu viku. Starfsmönnum fyrirtækisins hefur tekist að endurheimta 250.000 laxa að nýju, en eftir stendur ein stærsta slepping frá laxeldisstöð sem þekkist.

Upplýsingar frá fyrirtækinu greina frá því að ástæða slysasleppingarinnar var óveður sem gekk yfir eldissvæðið. Endurheimt 680.000 laxa er nú verkefni fyrirtækisins í samstarfi við sjómenn á svæðinu, að því kemur fram í frétt Bloomberg um málið. 

Fiskeldisfyrirtæki í Síle hafa verið gagnrýnd hart vegna mikillar lyfjanotkunar vegna laxalúsar og ásakana um að losa sig við dauðan fisk í sjóinn. Áhyggjur, og gagnrýnin, lítur að því að laxinn sem um ræðir á ekki heima í vistkerfi landsins, enda Atlantshafslax. Er fullyrt að þetta gríðarlega magn af laxi muni hafa mjög neikvæð áhrif á vistkerfið, sem er metið viðkvæmt fyrir.

Umfangið gríðarlegt

Í tilkynningu frá Marine Harvest segir að fyrirtækið muni leita allra leiða til að lágmarka umhverfisleg áhrif slysasleppingarinnar, og reyna að endurheimta sem allra mest af þeim fiski sem slapp. Þá segir að verið sé að leita skýringa á því hvað aflaga fór, og jafnframt verði allar eldisstöðvar fyrirtækisins teknar út með tilliti til þess hvort frekari hætta sé fyrir hendi á slysasleppingum sem þessari.

Í ársskýrslu Marine Harvest frá því í fyrra kemur fram að það ár slapp lax frá sjóeldisstöðvum þess í fimmtán skipti – og samtals rúmlega 23.000 laxar. Umfang þessarar sleppingar er því risavaxin í öllum samanburði.

Bann við eldi

Þess er skemmst að minnast að í ágúst í fyrra sluppu 150.000 – 250.000 laxar úr kvíum Cooke Aquaculture við Cypress-eyju skammt frá Seattle í Washington. Hart var tekið á slysasleppingunni á ríkisþinginu í Seattle og bann við eldi á atlantshafslaxi í sjókvíum var samþykkt, enda laxinn gestur í vistkerfinu þar eins og í Síle.