þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óheppilegur tími til að auka kvaðir

Guðsteinn Bjarnason
24. október 2020 kl. 13:00

Löndun á Arnarstapa. Mynd/gugu

Fjárhagur hafna er viðkvæmur.

Gísli Gíslason, stjórnarformaður Hafnasambands Íslands, segist treysta því að stjórnvöld ræði betur við hafnirnar áður en tekin verður ákvörðun um nýja reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla.

„Þetta er fremur óheppilegur tímapunktur að leggja á hafnirnar verulegar kvaðir í umfangi,“ segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Hafnasambands Íslands, spurður um áform stjórnvalda um aukið eftirlit með vigtun og skráningu sjávarafla.

„Fjárhagur hafna er mjög viðkvæmur.“

Gísli Gíslason hefur um árabil verið hafnarstjóri Faxaflóahafna en lét þar af störfum í ágúst. Hann er hins vegar enn stjórnarformaður Hafnasambands Íslands, og verður enn um sinn.

Hann segir fjárhagsstöðu hafna reyndar hafa verið bærilega víðast hvar, en svo séu undantekningar þar sem verulega þungt er undir fæti.

„Heildartekjur allra hafna á Íslandi eru um tíu milljarðar en sveiflurnar í því geta orðið talsvert miklar, sem á eflaust eftir að sýna sig núna fyrir árin 2020 og 2021.“

Vigtun og skráning

Fiskifréttir fjölluðu í síðustu viku um drög að reglugerð um vigtun og skráningu á sjávarafla, sem voru nýverið til kynningar á Samráðsgátt stjórnvalda. Þar er meðal annars að finna nýjar kröfur um að myndavélaeftirlit verði í öllum löndunarhöfnum auk þess sem auknar kröfur eru gerðar um búnað til vigtunar og hæfi starfsmanna.

Ýmis konar gagnrýni barst á drögin í Samráðsgáttinni meðan þar var opið fyrir umsagnir. Einna hörðust var þó gagnrýnin frá Hafnasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og nokkrum löndunarhöfnum hér á landi.

„Skilaboð hafna á Íslandi eru býsna skýr og afdráttarlaus,“ segir Gísli. „Við treystum því að það verði lögð í þetta verulega meiri vinna og rætt við okkur áður en menn taka ákvörðun.“

Hafnirnar óhressar

„Hafnirnar eru almennt ekki vel undirbúnar í aukinn kostnað við vigtun, bæði mannahald, búnað og rekstur,“ segir Gísli. „Þetta hefur verið þróun í dálítinn tíma þar sem verið er að auka skyldur hafnanna án þess í raun og veru að menn horfi á tekjuhlutann. Það er ljóst að ef hafnir þurfa að leggja í verulega aukinn kostnað í vigtun á sjávarafla þá þarf að hækka gjöld því samfara, sem enda að sjálfsögðu á þeim sem eru að landa aflanum.“

Hann segir hafnirnar hafa almennt verið óhressar með þessa þróun.

„Það er ein meginástæða fyrir athugasemdum okkar við tillöguna að reglugerðinni, að það liggur ekki fyrir neitt kostnaðarmat á þessum hugmyndum sem menn eru með. Auk þess sem við teljum að þetta þurfi nú að skoða í ljósi almennra lagaheimilda fyrir þeim kvöðum sem settar eru inn í reglugerðina.“