þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Októberaflinn 20% verðmætari en í fyrra

20. nóvember 2012 kl. 09:28

Síldveiðar í Breiðafirði (Mynd: Ólafur Óskar Stefánsson)

Alls veiddust tæp 100 þúsund tonn í mánuðinum.

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum októbermánuði, metinn á föstu verði, var 19,5% meiri en í október 2011. Það sem af er árinu hefur aflinn aukist um 15,6% miðað við sama tímabil 2011, sé hann metinn á föstu verði, en þá er verið að bera saman verðmæti út frá gefnum forsendum. 

Aflinn nam alls 99.000 tonnum í október 2012 samanborið við 77.000 tonn í október 2011.

Botnfiskafli jókst um tæp 8.600 tonn frá október 2011 og nam um 46.000 tonnum. Þar af var þorskaflinn rúm 23.000 tonn, sem er tæpum 5.200 tonnum meiri afli en á fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 4.300 tonnum sem er rúmlega 400 tonnum minni afli en í október 2011. Karfaaflinn jókst um tæp 500 tonn samanborið við október 2011 og nam rúmum 6.600 tonnum. Rúm 5.600 tonn veiddust af ufsa sem er tæplega 1.000 tonna aukning frá október 2011. Annar botnfisksafli nam um 6.500 tonnum og jókst um rúm 2.300 tonn frá fyrra ári.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 49.800 tonnum, en rúm 36.600 tonn af uppsjávarafla veiddust í október 2011. Tæpum 48.300 tonnum var landað af síld í októbermánuði, samanborið við 32.400 tonn í október 2011. Um 1.100 tonn veiddust af kolmunna, sem er samdráttur frá fyrra ári um 700 tonn, en enginn loðnuafli var í októbermánuði samanborið við tæp 2.000 tonn árið áður.

Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands.