laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Olíuleitin stressar fiskinn

3. mars 2010 kl. 15:10

Fiskurinn verður stressaður þegar hljóðbylgjur frá olíuleitarskipum streyma um sjóinn en bylgjurnar skaða hann ekki, samkvæmt rannsóknum norskra vísindamanna sem kynntar voru í vikunni, að því er fram kemur á vef norska ríkisútvarpsins.

Hegðun fisksins tekur marktækum breytingum þegar olíuleitarskipin eru á slóðinni sem lýsa sér meðal annars í því að hann ruglast í ríminu, flækist meira í netin en veiðist aftur á móti minna á línu.

Rannsóknin fór fram úti fyrir Lófóten og Vesterålen. Könnuð voru áhrif af hljóðbylgjum frá svonefndum seismikk-búnaði sem notaður er við að kortleggja jarðlög á hafsbotni sem hugsanlega fela í sér olíu.

Norska hafrannsóknastofnunin hefur unnið að þessum rannsóknum í nokkurn tíma og kostuðu þær litlar 25 milljónir króna norskar, tæpar 550 milljónir íslenskar. Beðið hefur verið eftir skýrslu stofnunarinnar með nokkurri eftirvæntingu því hún verður lögð til grundvallar því í hve ríkum mæli olíuleitarfyrirtækin fái heimild til að nota seismikk til rannsókna á góðum fiskimiðum.

Reidar Nilsens, forsvarsmaður samtaka norskra sjávarútvegsfyrirtækja, segir að niðurstöðurnar sýni að rannsóknir með hljóðbylgjum og fiskveiðar fari ekki saman. Á sama tíma og fulltrúar sjómanna segja að skýrslan sýni að olíuleitarskipin hafi slæm áhrif á fiskana og fæli þá jafnframt burt af veiðislóðinn, taka talsmenn olíuiðnaðarins henni fagnandi. Þeir telja að áhrif á fiskinn séu ekki víðtæk og að þeirra dómi sé ekkert því til fyrirstöðu að olíuleit og fiskveiðar eigi góða samleið.