sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Olíuslysið í Mexíkóflóa: Landkrabbar svíkja bætur út úr BP

17. ágúst 2010 kl. 10:57

Talið er að svikarar, sem þykjast vera fiskimenn, hafi nælt sér í  þúsundir dollara frá olíufélaginu BP í bætur vegna olíuslyssins í Mexíkóflóa.

Til þessa hefur BP greitt 308 milljónir USD (3,7 milljarða ISK) í bætur  til einstaklinga og fyrirtækja í sjávarútvegi. Lögregla hefur nú nokkra menn í haldi grunaða um að hafa misnotað kerfið sem komið var  upp til að bæta sjómönnum tjón sitt. Mörg hundruð mál eru einnig til rannsóknar.

Til að fá bætur þurfa sjómenn og útgerðarmenn að framvísa leyfum til atvinnuveiða. Sérstök stofnun í Louisiana annast útgáfu leyfanna. Þrátt fyrir að mörgum fiskimiðum hafi verið lokað vegna olíuslyssins hefur aldrei verið meira að gera hjá stofnuninni. Frá því olíulekinn hófst hafa verið seld 2.200 veiðileyfi sem er um 60% aukning miðað við sama tíma í fyrra.

Í fyrstu voru bætur greiddar til þeirra sem sýndu leyfin án þess að kannað væri hvort þeir hefðu nokkurn tímann farið á sjó. Talið er að landkrabbar hafi séð sér leik á borði og orðið sér út um veiðileyfi til að svíkja fé út úr olíurisanum. Nú er þess krafist líka að menn sanni að þeir hafi dregið fisk úr sjó.

Heimild: www.telegraph.co.uk