sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ólöglegar fiskveiðar tengdar skipulagðri glæpastarfsemi

26. september 2009 kl. 14:31

Stjórnvöld bæði í Noregi og annars staðar verða að átta sig á þeirri staðreynd að ólöglegar fiskveiðar viðgangast vegna þess að vel skipulögð glæpasamtök taka þátt í þeim og sjá um að koma fiskinum á markað.

Svo segir í nýrri skýrslu um ólöglega verslun með fisk úr Barentshafi inn á Asíumarkað, sem unnin var fyrir norska sjávarútvegsráðuneytið. Þar er því haldið fram að ómögulegt sé að koma ólöglega veiddum fiski í gegnum toll og önnur eftirlitskerfi nema fyrir tilstilli alþjóðlegs glæpanets.

Í framhaldi af skýrslunni hefur norska stjórnin ákveðið að koma á fót starfshópi til þess að rannsaka þessi mál.

Skýrsluhöfundur segir að ýmsar leiðir séu notaðar til þess að koma ólöglegum þorski úr Barentshafi inn til Kína. Sem dæmi megi nefna að sama tollnúmerið sé notað fyrir slægðan og hausaðan frystan þorsk og fyrir tegundir eins og alaskaufsa og annan hvítfisk svo sem hokinhala og lýsing. Þá er bent á að ef rússneskum fiski sé endurpakkað í Hollandi fái fiskurinn hollenskt heilbrigðisvottorð og þar með hollenskt upprunavottorð.

Í skýrslunni kemur fram að þau félög sem viðriðin séu ólöglegar veiðar í Barentshafi séu gjarnan skráð í skattaparadísum og þess séu dæmi að norskir ríkisborgarar séu viðriðnir starfsemina.

Því má bæta við að nýlega náðist alþjóðlegt samkomulag um aðgerðir gegn ólöglegum veiðum í heimshöfunum. Samkvæmt því verða gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að ganga úr skugga um að fiskur sem ætlunin er að skipa upp í höfnum hafi verið veiddur með löglegum hætti.