mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Opinn fyrirlestur um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna

9. september 2015 kl. 12:35

Eitt stærsta útgáfufyrirtæki lagabóka í heimi, Brill/Nijhoff, hefur gefið út bók dr. Bjarna Más Magnússonar, lektors við HR um málefnið

Dr. Bjarn Már Magnússon, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík verður með opinn fyrirlestur um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna í Háskólanum í Reykjavík, fimmtudaginn 10. september, kl.16:30 til 17:15 í stofu V-102.

Eitt stærsta útgáfufyrirtæki lagabóka í heimi, Brill/Nijhoff, hefur gefið út bók dr. Bjarna Más Magnússonar, lektors við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Bókin ber titilinn The Continental Shelf Beyond 200 Nautical Miles –Delineation, Delimitation and Dispute Settlement.

Í henni fjallar Bjarni um afmörkun landgrunns strandríkja utan 200 sjómílna og afmörkun hafsvæða nágrannaríkja, frá ýmsum hliðum. Lögð er áhersla á hlutverk strandríkja, landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra dómstóla í þessu samhengi.

Í kynningu frá Brill/Nijhoff segir að Bjarni rökstyðji vel að þrátt fyrir að spenna geti skapast í málum tengdum afmörkun landgrunns, sé skýrt hvernig samspili umræddra stofnana og málsmeðferða sé háttað og þær séu hluti af rökrænu kerfi þar sem hver þáttur spili ákveðið hlutverk.

Í fyrirlestrinum mun Bjarni kynna bók sína og svara spurningum úr sal.

Bjarni Már er með doktorspróf í lögfræði frá lagadeild Edinborgarháskóla og starfar sem lektor við lagadeild HR. Hann var í lagateymi Bangladesh gegn Myanmar í fyrsta deilumálinu sem flutt var fyrir alþjóðlegum dómstól um afmörkun landgrunns utan 200 sjómílna. 

Fundurinn verður á íslensku og er öllum opinn. Boðið verður upp á léttar veitingar að fyrirlestri loknum.