miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Orð ráðherra kveikja elda

11. nóvember 2013 kl. 19:41

Makrílveiðar á handfæri. (Mynd: Vilmundur Hansen).

Síminn á skrifstofu LS logaði í dag

Síminn á skrifstofu LS hefur hreinlega logað í allan dag vegna markrílfréttar Stöðvar 2 í gærkveldi. Þar var rætt við Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra um stjórnun makrílveiða á næsta ári, segir á vef Landssambands smábátaeigenda.
Í upphafi fréttarinnar segir: „Makríll verður settur í kvótakerfi á næsta ári og verða heimildirnar miðaðar við aflareynslu skipa og verða með frjálsu framsali, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra.“
Í viðtalinu segir ráðherrra það hafa legið fyrir „um nokkurt skeið að komin sé nægjanleg reynsla á makrílveiðarnar og þar með lagaleg skylda, hvort sem er samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eða úthafsveiðilögunum, að fara þessa leið og við erum að skoða það í ráðuneytinu.“
Síðar í viðtalinu boðar ráðherra sérstaka lagasetningu um makrílveiðarnar þar sem tekið verði tillit til veiðireynslu, verðmætasköpunar og væntanlega einhverra fleiri þátta í samráði við útgerðarmenn jafnt stórra sem smærri útgerða í landinu.
Vegna þessarar fréttar er rétt að taka fram að stefna Landssambands smábátaeigenda er skýr varðandi þessi mál.  Færaveiðum smábáta á makríl eigi ekki að stjórna með kvótasetningu. Það fyrirkomulag sem gilt hafi á síðasta ári hafi hentað vel, gefið mönnum tækifæri til að þróa veiðarnar og þreifa fyrir sér á mörkuðum.   
Sé horft til Noregs varðandi makrílveiðar hefur reynsla þeirra leitt í ljós að hlutur færaveiða í heildarveiðinni er um 18% heildaraflans sem byggist m.a. á að á þeirra veiðislóð er makríllinn stærri og þar með verðmætari en sá sem veiðist fjær landi.  Reynslan hér á sl. sumri gefur sömu niðurstöðu.
Í ár kom makríll í raun í fyrsta sinn í miklu magni á veiðislóð smábáta. Á annað hundrað báta reyndu fyrir sér við veiðarnar og gekk veiðin framar vonum, þegar tekið er tillit til að flestir voru í fyrsta sinn að stunda þessar veiðar, segir ennfremur á vef LS.