mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Orðspor íslenskrar síldar í rúst

Guðsteinn Bjarnason
20. október 2019 kl. 08:00

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Eyjum, þegar nýr Breki kom til landsins á síðasta ári. MYND/Óskar P. Friðriksson

Binni í Vinnslustöðinni segir trollveiði eiga sökina á því að íslenska síldin sé lakasta síldin á markaðnum. Hann ræðir einnig loðnubrestinn og fjárfestingar fyrirtækisins á síðustu árum.

„Síldarmarkaðurinn er algjörlega í rúst hjá okkur Íslendingum. Orðspor íslenskrar síldar er ekkert,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðarinnar í Vestmannaeyjum. „Við höfum algjörlega misst stöðu okkar sem síldarframleiðendur, og ástæðan er sú að við erum hætt að veiða hana í nót.“

Væntanlega eru ekki allir útgerðarmenn sammála honum um þetta, en honum er nokkuð niðri fyrir og segist fastlega reikna með því að einhverjir eigi eftir að öskra á sig vegna þessara orða.

„En þetta er þannig að við trollum þetta allt saman. Svo er þetta trollað í 5-6 tíma og tekin nokkur hundruð tonn í hverju hali. Síldin er þá öll marin, skemmd og ónýt.  Á markaðnum er okkar síld langlakasta síldin. Menn vilja síst af öllu kaupa íslenska síld, sem áður var verðmæt,“ segir Binni, eins og hann er jafnan nefndur.

Hann segir trollveiðarnar einnig koma í veg fyrir að þeir sem helst vildu veiða síldina í nót geti gert það.

„Þegar þú ferð með troll í gegnum síldartorfu þá tvístrast hún öll saman. Það er ekkert hægt að vera þar með nót. Svo ertu með miklu meiri olíu og langlökustu síldina á markaðnum. Það er allt vont í þessu, og þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að Norðmenn fá hærra verð fyrir síldina sína og makrílinn.“

Hann segir norska útvegsmenn veiða sína síld að langmestu leyti í nót. Þannig haldi þeir uppi gæðunum og kostnaðinum niðri.

Sama gildir reyndar um makrílinn, en að sögn Binna veiða „Norðmenn veiða makrílinn fyrst og fremst í nót en líklega munum við ekki geta það á Íslandsmiðum. Þetta er eitt af því sem við verðum að sætta okkur við, og þetta er munurinn hjá okkur. En við eigum alla möguleika á að ná Norðmönnum í síldinni. Í Portúgal fáum við hugsa ég að meðaltali tíu prósent hærra verð fyrir íslenskan saltfisk heldur en fæst þar fyrir norskan, og það er af því við vitum hvernig á að gera hann. Við meðhöndlum hann rétt, við veiðum hann í net, flokkum hann rétt og gerum þetta allt vel. Við getum alveg gert þetta í síldinni líka.“

Í öllum kreppum eru tækifæri
„Þetta kom auðvitað mjög illa við okkur,“ segir Binni um loðnubrestinn á þessu ári. Aldrei þessu vant lét loðnan ekki sjá sig og höggið varð mikið fyrir þau fyrirtæki og sveitarfélög sem reiða sig að stórum hluta á uppsjávarfisk.

Að sögn Binna væri velta Vinnslustöðvarinnar af loðnu líklega rúmir tveir milljarðar í eðlilegri loðnuúthlutun.

„Það er sjálfsagt svona um það bil 20 til 25 prósent af veltu Vinnslustövarinnar, þessir tveir milljarðar, en það er samt stærri hlutur í afkomunni. Ástæðan er sú að tækjunum þarf að halda við. Það þarf að halda bátunum við. Við stjórnendurnir erum allir á launum hvort sem það er loðnuvertíð eða ekki. Þannig að þær krónur sem töpuðust eru hlutfallslega hærri þegar svona dettur út. Sennilega fer það hátt í að vera 50 prósent og það má eiginlega segja að ekkert hafi komið í staðinn.“

Humarinn líka
Fyrir utan loðnuna hefur humarinn einnig brugðist. Nýliðun hefur þar verið nánast engin síðustu misserin og skýringar á því liggja ekki á lausu.

„Við erum stórir í humri þannig að þetta hefur mikil áhrif. Að missa svona tvær tegundir út er gríðarlegt högg. En á móti kemur að við þurfum auðvitað að borga af öllum okkar fjárfestingum. Það breytist ekkert og hluta af þessum fjárfestingum þurfum við auðvitað að gjaldfæra, bara í afskriftum. Svo er það þannig að sjómennirnir fá ekki laun. Þeirra tjón er altjón, sem er ekki gott.“

Hann segir fyrirtækið meðal annars hafa brugðist við með því að keyra niður mannafla eftir því sem hægt er: „Við höfum ekki farið í beinar uppsagnir en við höfum fært fólk til í störfum. Við vorum að klára ýmislegt í fjárfestingunum hérna hjá okkur. Einhverjir fóru í það. Svo höfum við ráðið færri inn á vaktir heldur en við hefðum gert ella,“ segir Binni en : „Í öllum kreppum eru auðvitað tækifæri, það knýr mann til að hugsa öðru vísi.“

80 milljónir evra
Tækifærin liggja meðal annars í fjárfestingum fyrirtækisins undanfarin fjögur ár tæplega. Samtals hefur Vinnslustöðin fjárfest fyrir 80 milljónir evra á þessum tíma.

„Evran fór hæst í 180 krónur og fór lægst í 120 þannig að þú getur margfaldað hana með ýmsum tölum, en ef maður margfaldar það með 140 krónum þá er þetta nálægt því að vera 11 eða 12 milljarðar króna.“

Eitt af því sem komið er í gagnið er ný og fullkomin frystigeymsla sem kostaði 1,2 milljarða. Einnig er komin ný uppsjávarvinnsla með frystihúsi og mótorhúsi sem samtals kostaði tæpa tvo milljarða og flokkunarstöð fyrir rúmar 500 milljónir.

„Svo keyptum við Breka og afhentur í Kína kostaði hann 11 milljónir dollara, en svo þurfti auðvitað að sigla honum heim, setja í hann tæki og búnað, veiðarfæri og fleira. Ég held að hann standi í bókunum hjá okkur í eitthvað 12 eða 13 milljónum evra,“ segir Binni.

Fjárfestingarlotunni að ljúka
Til viðbótar nefnir hann mjölhúsið sem kostaði rúmar 500 milljónir og fjóra hráefnistanka sem hver um sig kostaði 150 milljónir.

„Við keyptum líka uppsjávarskip af Granda. Svo keyptum við 0,7 prósent af loðnu af þeim og Ingunni og Faxa. Þetta var auðvitað heilmikil endurnýjunarfjárfesting, skipin okkar voru mjög gömul og lúin. Það voru eitthvað rétt um tveir milljarðar. En það er samt þannig að Kap sem var Faxi áður og Ingunn sem er núna Ísleifur, þetta eru með elstu skipum uppsjávarflotans í dag. Þótt við höfum yngt um 20 ár á þessum tíma erum þessi skip samt með elstu skipunum.“

Enn eru framkvæmdir í gangi hjá Vinnslustöðinni. Verið er að ljúka við nýja starfsmannaaðstöðu en þegar hún er tilbúin verður hlé gert á fjárfestingum, að minnsta kosti í bili. Innnan einhverra ára liggur þó fyrir að endurnýja þurfi botnfiskvinnsluna, umbylta þar öllu enda húsnæðið óhagkvæmt og vélarnar komnar til ára sinna.

„Það eru auðvitað gríðarlegar fjárfestingar, en félagið eins og það var áður en við fórum af stað hefði ekki getað rekið þessa uppsjávarvinnslu eða neitt af þessum einingum. Við hefðum getað hangið á þessu en þetta var allt orðið gamalt, allt orðið úr sér gengið.“

Portúgal og Japan
Meðal þess sem Vinnslustöðin hefur fjárfest í eru tvö erlend fyrirtæki, annað í Portúgal en hitt í Japan.

Nú í sumar festi fyrirtækið kaup á Grupeixe í Portúgal, saltfiskvinnslufyrirtæki sem hefur keypt þorsk frá Íslandi, Noregi, Rússlandi og víðar að til að þurrka og selja á mörkuðum.

„Við vinnum saltfiskinn hér, það breytist ekkert. Fiskurinn er flattur og saltaður, honum er svo pakkað blautverkuðum og fluttur til Portúgal þar sem hann er þurrkaður. Þaðan er honum svo dreift aðallega til veitingahúsa.“

Í Japan keypti Vinnslustöðinn svo hlut í Okada Suisan, japönsku loðnuvinnslufyrirtæki sem selur afurðirnar til stórra verslunarkeðja í Japan.

Allir loðnumarkaðir tómir
„Loðnumarkaðurinn í Japan er 25 þúsund tonn og þetta fyrirtæki er með helminginn af honum. Þeir eru að selja þarna í 20 þúsund verslanir. Þeir byrjuðu að þurrka loðnu 1970, voru fyrst með óflokkaða loðnu og eru nú að markaðssetja hæng. Þeir eru að nota um það bil 4 til 5 þúsund tonn af hæng árlega. Við vissum ekkert um það fyrr en núna nýverið að það væri hellings loðnuhængsmarkaður í Japan. Svo eru þetta 5 til 7 þúsund tonn af hrygnu árlega. Við þekkjum orðið loðnumarkaðinn mjög vel í Japan.“

Hann segir Vinnslustöðina aldrei geta annað þörfinni ein. Japanir hafi verið að kaupa líka af Eskju, Síldarvinnslunni, Ísfélaginu og öðrum.

„Við auðvitað styðjum við bakið á þeim í viðskiptum við aðra. Svo byrjuðu þeir að framleiða íslenskan makríl fyrir tveimur árum, og nú eru þeir að nota 4 þúsund tonn af makríl. Þar af koma 2000 tonn frá okkur.“

Svo þegar loðnan lætur ekki sjá sig hér við land þá þarf að ná í hana annars staðar.

„Hún hefur verið í Barentshafi og hún hefur verið við Kanada, en það er svo lítið. Það er gríðarlegt atriði fyrir Íslendinga núna að finna loðnu því allir loðnumarkaðir eru tómir. Ef framleiðendurnir fá ekki loðnu þá fara þeir mjög margir á hausinn, og þá er engin þekking eftir til að koma þessu á markaðinn. Þannig að þetta er ekki einkamál okkar.“

Leiðrétting:
Þessi grein birtist í Fiskifréttum síðastliðinn fimmtudag. Misskilningur blaðamanns varð til þess að í blaðinu var sagt að Norðmenn hefðu reglur um að ekki mætti veiða síld nema í nót. Binni segir hins vegar „norska útvegsmenn veiða sína síld að langmestu leyti í nót. Þannig halda þeir uppi gæðunum og kostnaðinum niðri.“