sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskinum mokað upp við Bjarnarey

8. júní 2009 kl. 15:35

Norskir frystitogarar mokveiða nú þorsk við Bjarnarey og skipstjórar segjast aldrei fyrr hafa kynnst annarri eins veiði. Þessi góða veiði er ekki aðeins bundin við Bjarnarey heldur veiðist þorskurinn grimmt víða í Barentshafi.

Þessar upplýsingar koma fram í Fiskeribladet/Fiskaren. Haft er eftir fiskveiðieftirlitsmönnum að frá því í byrjun maí í vor hafi verið gríðarlega góð þorskveiði við Bjarnarey og Svalbarða og á stórum svæðum í Barentshafi. Einn eftirlitsmanna segist hafa fylgst með þessum málum í 25 ár og aldrei fyrr hafi hann kynnst viðlíka aflabrögðum. Hann segir að þorskinn sé að finna norðar en áður og að hann sé einnig mánuði fyrr á ferðinni en í venjulegu árferði.

Blaðið ræddi við skipstjóra á norska frystitogaranum J. Bergvoll. Skipið var þá að veiðum suður af Bjarnarey og voru þeir að taka inn trollið. Skipstjórinn segist ekki eiga orð til að lýsa hinni miklu þorskgengd á slóðinni. ,,Ég veit að orðið ævintýri er oft ofnotað til að lýsa góðri veiði en ef það á einhvern tímann við þá er það núna. Ég hef aldrei upplifað annað eins frá því ég fór fyrst til sjós. Það þarf aðeins að dýfa trollinu í sjóinn og þá er það fullt. Við fengum eitt 17 tonna hal af slægðum þorski eftir 50 mínútur, annað 10 tonna hal eftir 35 mínútur, og það sem við erum með núna lofar mjög góðu. Hér er um vænan þorsk að ræða og lítið um undirmál,“ segir skipstjórinn.