þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskkvótinn: Ekki gripið til örvæntingarfullra viðbragða

9. október 2008 kl. 10:51

„Þegar svona álitaefni koma upp á borðið eiga menn ekki að bregðast við með örvæntingarfullum hætti. Ég mun hins vegar fjalla um málið á efnislegan hátt en get ekkert sagt til um það hver líkleg niðurstaða verður,” sagði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra þegar Fiskifréttir leituðu álits hans á hugmyndum um að auka þorskkvótann til þess að milda það högg sem efnahagslíf þjóðarinnar hefur orðið fyrir vegna bankakreppunnar.

-- Sumir álíta að spurningin sé hversu hratt menn vilji byggja upp þorskstofninn fremur en að verið væri að skaða stofninn með því að veiða meira. Er svigrúm til kvótaaukningar út frá þessum forsendum?

 „Um það vil ég ekki tjá mig meira á þessari stundu. Í mínum huga er það sjálfgefið að við munum aldrei haga málum þannig að við göngum á þorskstofninn. Ég tel að ákvörðunin í fyrra um uppbyggingu stofnsins hafi verið mjög skynsamleg.

Jafnframt er það mín skoðun að reynslan á síðasta fiskveiðiári hafi sýnt að neikvæðar afleiðingar kvótaskerðingarinnar urðu ekki eins miklar og ég og aðrir þóttumst sjá fyrir.

 Það hefur einnig verið nefnt í þessari umræðu að óhætt væri að auka síldarkvótann. Við aflaákvörðunina í júlí síðastliðnum varð það niðurstaða mín að heimila 19.000 tonna hærri kvóta en Hafrannsóknastofnun hafði ráðlagt.

Jafnframt lýsti ég því yfir að ég myndi beita mér fyrir því að farið yrði til frekari síldarmælinga í haust. Það er því ekki tímabært að taka afstöðu til aukningar síldarkvótans fyrr en þeim mælingum er lokið,” sagði Einar K. Guðfinnsson.