þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorsteinn Már Baldvinsson: Ólíkt hafast stjórnvöld að í Noregi og á Íslandi

8. október 2010 kl. 13:49

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., dró upp sláandi mynd af aðstöðumun íslensks sjávarútvegs í samkeppni við norskan á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var á dögunum. Hann sagði að á meðan íslenskur sjávarútvegur byggi við óvissu væru Norðmenn á mikilli siglingu, að því er fram kemur í grein í nýjustu Fiskifréttum.

Þorsteinn bar meðal annars saman viðhorf stjórnvalda í Noregi og á Íslandi til sjávarútvegsins. ,,Í báðum löndunum eru vinstri sinnaðar velferðarstjórnir við völd en ólíkt hafast þær að. Á Íslandi vilja ráðamenn leggja niður sjávarútvegsráðuneytið, setja Hafrannsóknastofnun undir umhverfisráðuneytið, stóru sjávarútvegsfyrirtækin eru þyrnir í augum ráðamanna. Lítil sem engin samskipti eru milli greinarinnar og stjórnvalda. Hér er líka endalaus umræða og krafa um álögur á sjávarútveginn,“ sagði Þorsteinn. 

,,Í Noregi er sjávarútvegsráðherra sóttur í greinina. Hafrannsóknastofnunin heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið. Lagaramminn gerir fyrirtækjum kleift að vaxa. Mikil samvinna er milli stjórnvalda og hagsmunaaðila. Aukin gjaldtaka fer óskert til markaðsstarfa. Hvatt er til fjárfestinga og markmiðið er stöðugleiki.

Hér á landi er mikil og stöðug barátta um skipulag veiða og á meðan styrkja keppinautar okkar sig á mörkuðum erlendis með fulltingi stjórnvalda. Ég held að við eigum eftir að uppgötva að héðan mun fara hæft fólk meira en orðið er til Noregs að vinna í sjávarútvegi. Við vitum hvað hefur gerst síðastliðin tvö ár og sú þróun mun halda áfram,“ sagði Þorsteinn. Hann bætti því við að hann hefði séð leiðbeiningar til norskra atvinnurekenda hvert þeir ættu að sækja hæft fólk til starfa. Þar kemur fram að á Íslandi sé gott að fá lækna, verkfræðinga og síðast en ekki síst menntað fólk í sjávarútvegi,

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.