mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Öryggi áhafnar og skips á að ráða

7. ágúst 2019 kl. 13:00

Valmundur Valmundsson

Öryggi skips og áhafnar verður alltaf að vera í fyrsta sæti þegar kemur að sjósókn, skrifar Valmundur Valmundarson, formaður Sjómannasambands Íslands.

Í umsagnarferli á samráðsgátt stjórnvalda er frumvarp til laga um breytingar á mönnun smærri skipa. Það má skilja á frumvarpsdrögunum að samræma þurfi reglurnar um mönnun þannig að fækka þurfi réttindamönnum á skipum undir 24 metrum. Talað er um í skýringum að:

„Samkvæmt þessu geta krókaaflamarksbátar verið 15 metra langir en með því falla þeir ekki lengur undir ákvæði áhafnalaga um smáskip, sem miðast við 12 metra, heldur skip 12-24 metra með þeim auknu kröfum til skipstjóra-, stýrimanna- og vélstjórnarréttinda. Ef sigling er styttri en 14 klst. þarf undanþágu frá mönnunarnefnd og má skipið þá vera án stýrimanns.“

Væri nú ekki nær að afnema allar undanþágur heldur en að rýmka til á þeim bænum? Það hefur margoft komið fyrir á undanförnum árum bátar hafa strandað vegna ónógrar hvíldar þeirra sem um borð eru. Þó „bara“ sé róið í 14 tíma. Reyndar væri miklu nær að stýrimaður og vélstjóri væru um alltaf um borð í skipum undir 24 metrum þó ekki sé róið lengur en 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili og engar undanþágur veittar. Fara sem sagt í hina áttina.

Það gengur ekki að lög um stjórn fiskveiða ráði mönnun Íslenskra fiskiskipa. Öryggi áhafnar og skips á alltaf að ráða. Í þessum skipum er oft mjög öflugur búnaður og ekki viðhlítandi að sami maður stjórni skipi, sinni vélgæslu og stjórni öllum þeim búnaði sem um borð er. Er virkilega vilji til þess að öryggi til sjós minnki frá því sem nú er?

Þessum lagabreytingum er því mótmælt harðlega af undirrituðum og ekki forsendur til breyta lögum um mönnun skipa út frá þeim rökum að lög um stjórn fiskveiða kalli á það.

Öryggi skips og áhafnar verður alltaf að vera í fyrsta sæti þegar kemur að sjósókn.