fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Öryggishjálmur fyrir sjómenn með þráðlausum samskiptum

Guðjón Guðmundsson
6. júní 2019 kl. 09:00

Hópurinn sem fékk verðlaun fyrir sína hugmynd í Nýsköpun og stofnun fyrirtækja.

Hönnun hjálmsins er hluti af verkefni sem hefur verið unnið að í nýsköpunarnámi við Háskólann í Reykjavík. Ekki hafa áður verið hannaðir öryggishjálmar sem eru sérstaklega ætlaðir fyrir sjómenn.

Verið er að hanna sérstaka öryggishjálma fyrir sjómenn með nútímalegum samskiptabúnaði. Hönnunin er hluti af verkefni sem hefur verið unnið að í nýsköpunarnámi hjá HR. Ekki hafa áður verið hannaðir öryggishjálmar sem eru sérstaklega ætlaðir fyrir sjómenn.

Haftengd nýsköpun er diplómanám sem Háskólinn í Reykjavík býður upp á í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Námið byggir að miklu leyti á viðskiptafræði úr HR og sjávarútvegsfræði frá HA. Einn áfanginn kallasta Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Út úr þessum áfanga hafa orðið til margvísleg verkefni. Eitt þeirra er Mazu – öryggishjálmur sjómanna sem fékk sérstök verðlaun á nýafstöðnu námskeiði HR í þessum áfanga.

Guðrún Ósk Jóhannesdóttir er einn sex nemenda sem stendur að verkefninu. Hinir fimm eru Erlendur Ágúst Stefánsson, Halla Kristín Kristinsdóttir, Oddný Karólína Hafsteinsdóttir, Sigurður Björn Oddgeirsson og Thelma Sveinsdóttir.

Hugmyndin kviknaði út frá sjóslysi

„Námið byrjaði í ágúst í fyrra og nú tökum við saman sumarönn og útskrifumst í ágúst. Hugmyndin er fengin að láni frá eldri bróður mínum, Gretti Jóhannessyni, sem hefur gengið með hana í kollinum í talsverðan tíma. Hann hefur verið til sjós og faðir okkar líka og afi átti útgerð. Sjómennska hefur því verið viðloðandi okkar fjölskyldu lengi. Fyrir þó nokkuð mörgum árum varð slys til sjós sem tók dálítið á bróður minn og hann hefur velt þessu mikið fyrir sér. Hann komst meðal annars að því að það hefur aldrei verið þróaður sérstakur hjálmur fyrir sjómenn. Mér skilst að sjómenn noti mikið skíðahjálma. Þeir eru hannaðir með það fyrir augum að verja höfuð þess sem kemur á ferð á kyrrstæðan hlut en öryggishjálmur sjómanns á að verja hann fyrir aðskotahlutum sem koma á ferð á hann kyrrstæðan. Upp á högg að gera eru byggingahjálmar skárri en skíðahjálmar því þeir eru hannaðir til að verja höfuðið fyrir aðskotahlutum sem lenda á kyrrstæðum manni,“ segir Guðrún.

Þráðlaus samskipti og neyðarhamur

Hluti af verkefninu er að stofna gervifyrirtæki um hugmyndina en Guðrún telur nokkuð víst að hópurinn fari áfram með hana og geri vöruna að veruleika.

Guðrún segir slysavarnir og fræðslu til fyrirmyndar á Íslandi. En sé litið til umheimsins sé staðan önnur. Samkvæmt tölum frá FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, týnir um 32 þúsund manns lífinu til sjós á hverju ári.

„Það eru tveir vanir sjómenn í hópnum okkar. Hönnun hjálmsins er ekki lokið en hugmyndin er þarna. Hún gengur út á það að laga lögun hjálmsins að höfðinu svo hann sé sem þægilegastur. Einnig ætlum við að bæta öndun þeirra. Við höfum kynnt okkur hvaða efni henta best í hjálma og einnig í innvols þeirra. Við gerum líka ráð fyrir þráðlausum samskiptabúnaði sem ekki er að finna í hjálmum í dag. Snúrur í samskiptabúnaði geta aukið slysahættu og við ætlum að finna lausn á því. Auk þess gerum við ráð fyrir staðsetningartæki og neyðarljósi í hjálminum þannig að fari hjálmurinn út fyrir ákveðinn radíus á stjórnstöðinni fari í gang ákveðinn neyðarhamur,“ segir Guðrún.

Hún segir að fari allt að óskum sjái hópurinn fyrir sér stofnun alvöru fyrirtækis og markað fyrir öryggishjálmana um víða veröld.