fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óttast að krókaveiðar leggist af

Guðjón Guðmundsson
13. febrúar 2019 kl. 07:00

Davíð Freyr Jónsson ásamt Mariusz Andruszkiewicz, framleiðslustjóra Royal Iceland. MYND/GUGU

Makrílvinnsla Royal Iceland stendur og fellur með krókaveiddum makríl.

Þróuð hefur verið sértæk vinnsla á makríl, m.a. fyrir sushi-veitingastaði, hjá Royal Iceland í Njarðvík á undanförnum árum. Jöfn og góð eftirspurn er eftir vörunum sem seljast á margföldu því verði sem íslensk fyrirtæki eiga að venjast að fá fyrir makríl. En nú eru blikur á lofti og óttast forsvarsmenn fyrirtækisins, sem reiða sig alfarið á krókaveiddan makríl til framleiðslunnar, áhrif dóms Hæstaréttar sem dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart tveimur útgerðarfélögum vegna ólögmætrar úthlutunar á aflaheimildum í makríl á árunum 2011-2014.

Royal Iceland, áður Fram Foods, er í eigu Lúðvíks Barkar Jónssonar, áður framkvæmdastjóra  Icelandic France í Frakklandi, og fimm annarra meðeigenda, þar á meðal Kristjáns Hjaltasonar, nú sölu- og markaðsstjóra hjá rússneska sjávarútvegsfyrirtækinu Norebo. Lykilstarfsemi fyrirtækisins er framleiðsla og sala á hrognum. Árið 2017 rann Arctic Seafood, fyrirtæki um útgerð krókaveiðibátsins Fjólu GK, inn í Royal Iceland. Eigandi Arctic Seafood var Davíð Freyr Jónsson sem hafði vakið athygli fyrir góðan árangur í makrílveiðum á smábát. Framleiðsla úr makríl stendur nú undir um 10% af heildarveltu Royal Iceland sem er um einn milljarður ári.

Sú stefna var tekin að leggja talsverða áherslu á sérvinnslu og markaðssetningu á afurðum úr krókaveiddum makríl. Grundvöllurinn að þessu er ekki síst sá að Keflavík er stærsta einstaka löndunarhöfn landsins fyrir krókaveiddan makríl og auk þess stutt á alþjóðaflugvöllinn þaðan sem verðmætar afurðirnar fara til kaupenda.

Færaveiðar smábáta á makríl hófust 2008 en aflinn var innan við 10 tonn. 2010 reyndu 11 bátar fyrir sér og veiddu alls 180 tonn. 2011 veiddust 304 tonn á 21 bát og 17 bátar veiddu veiddu tæp 1.100 tonn með færum árið 2012.

Úr sálfræðinni í makrílinn

Davíð Freyr keypti Fjólu GK, 15 tonna bát árið 2010, þá nýkominn úr háskólanámi þar sem hann lagði stund á sálfræði og hagfræði. Hann hóf fljótlega veiðar á grásleppu og makríl en líka krabba og ígulkerjum, allt ókvótabundnum tegundum. Makríllinn var stóra tækifærið á þessum árum og vísbendingar um að hann væri farinn að ganga upp að landinu. Veiðarnar gengu upp og ofan 2011 en Davíð Freyr fiskaði um 52 tonn af makríl sem dugði til að standa undir kostnaði. Stóru krókaveiðiskipin fiskuðu lítið það árið og með mun meiri tilkostnaði.

„Næsta sumar breyttum við ýmsu en m.a. tvöfölduðum við hraðann á vindunum sem fjölgaði krókum í sjó. Við áttuðum okkur líka betur á göngumynstrinu og aflinn jókst verulega. Við vorum farnir að landa þrisvar á dag og þegar upp var staðið var aflinn af Fjólu orðinn 240 tonn sem var langt umfram það sem menn töldu gerlegt að veiða á trillu,“ segir Davíð Freyr.

Kvóti á grundvelli veiðireynslu

Á þessum árum keypti Frostfiskur í Þorlákshöfn og Stormur Seafood í Hafnarfirði makrílinn af Arctic Iceland sem fékk mun hærra verð fyrir aflann en stóru skipin. 2012 fengust til að mynda 150 krónur fyrir kílóið á sama tíma og stórútgerðin borgaði 40-60 krónur fyrir kílóið. Það lækkaði þó niður í 130-135 krónur kílóið seinni hluta árs 2012 og 2013. Með auknu heimsframboði lækkaði verðið enn frekar á árinu 2014 og hrapaði svo niður í 50-55 krónur eftir að Rússar settu viðskiptabann á vörur frá Íslandi 2015. Það sé hinsvegar ljóst að krókaveiddur makríll sem landað er daglega, hefur alla burði til að vera mikið dýrari vara en makríll sem veiddur er í troll. Í venjulegu árferði ætti að muna tugum prósenta segir Davíð enda um allt annað hráefni að ræða.

Sumarið 2013 stunduðu 90 krókabátar makrílveiðar og var aflinn um 4.700 tonn sem var 3,4% af heildarafla það árið. Enn fjölgaði makrílbátum 2014 þegar 121 bátur stundaði þessar veiðar. Aflinn var um 7.500 tonn sem var 4,9% af heildinni. Reglugerð um kvótasetningu á makríl var sett á af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vorið 2015. Á grundvelli veiðireynslu fékk útgerð Davíðs Freys úthlutað 350 tonnum.

Hráefnið sem Royal Iceland hefur nýtt til framleiðslu á fjölbreyttum afurðum úr makríl er eingöngu krókaveiddur fiskur mest af Fjólu GK og Blíðu GK, sem er einnig í eigu fyrirtækisins, ásamt tveimur bátum frá Þorlákshöfn.

Blikur á lofti

„Nú eru talsverðar blikur á lofti vegna dóms Hæstaréttar á síðasta ári. Við höfum lagt í verulega fjárfestingu fyrir þessa sérhæfðu makrílvinnslu og varið tíma og fjármunum til að þróa hana og markaðsstarfið. Við óttumst að teknar verði ákvarðanir í kjölfar dómsins sem gætu leitt til þess að öll sú þróunarvinna sem við höfum fjárfest í og margar aðrar vinnslur, fari fyrir lítið. Stjórnvöld hafa ítrekað hvatt til aukinnar verðmætasköpunar á makríl og margir orðið við kallinu. Hinsvegar óttumst við nú að heimildirnar sem trillurnar, ísfisk- og frystitogararnir fengu verði teknar af þeim og endurúthlutað til uppsjávarútgerðanna. Á þeim árum sem þær öfluðu sér sinnar veiðireynslu voru þær ekki framleiða góða manneldisvöru og fór stór hluti aflans í bræðslu. Ríkið hafði því málefnaleg rök fyrir því að bregðast við með þeim hætti sem gert var,“ segir Davíð Freyr.

Hann segir að vissulega hafi verið gerð mistök við úthlutun á sínum tíma og embættis- og ráðamenn hafi þvælst um í hálfkæringi. Dómurinn segir greinilega að veiðum hafi ekki verið formlega stýrt rétt.

„Nú hafa afleiðingarnar komið í ljós og ríkið er skaðabótaskylt. Staðan er erfið og flókin. Uppsjávarfyrirtækin sem um ræðir vilja eðlilega ekki fá skaðabætur því þær verða tiltölulega lágar og 30% af öllum heimildum í makríl verða alltaf mikið verðmætari en bæturnar. Afleiðingarnar af því yrðu þær að aðrir en uppsjávarskipin veiddu ekki makríl. Veiðar á krókaveiddum makríl legðust af, sem myndi kippa grundvöllinum undan allri okkar vinnslu í makríl og fjölda annarra fyrirtækja.“

Hágæðavara úr makríl

Þróun framleiðslu á shimesaba úr makríl hófst hjá Royal Iceland árið 2016. Shimesaba er beinhreinsuð, ediklöguð makrílflök sem sneidd eru í 8 gramma sneiðar og eru notuð til sushigerðar um allan heim. Þetta er þekkt og mikilvæg vara úr japanska eldhúsinu.

Royal Iceland náði að þróa aðferð til framleiðslunnar sem er ekki mjög mannaflsfrek. Keypt var sérhönnuð sneiðingarvél fyrir makríl og markaðurinn hefur smám saman byggst upp fyrir þessa framleiðslu. Framleiðslan byggist á hágæða, krókaveiddum makríl sem er fullkomlega kældur frá veiðum og frystur í mínus 20 til 21 gráður á Celsius. Hann er ekki blóðgaður en það hefur blætt úr honum frá sárum eftir króka. Með þessari meðhöndlun á makríl sem er veiddur í lok sumars nást einstök gæði.

Léleg meðhöndlun áður fyrr

„Það er til mikils að vinna því við Íslendingar kölluðum yfir okkur mikið tjón með því að frysta makríl illa um langt árabil. Hann varð í mörgum tilvikum gulur á lit og það var ekki óalgengt að gerðar voru háar endurkröfur á íslenska framleiðendur út um allan heim vegna þessa,“ segir Davíð Freyr Jónsson hjá Royal Iceland.

Það orðspor hafi farið af Íslendingum að þeir framleiddu ekki góðan makríl en Norðmenn á hinn bóginn skapað sér þann orðstír að til þeirra mætti sækja hágæðavöru. Makríll á Íslandsmiðum sé vissulega minni en almennt við Noreg og þar af leiðandi verðminni en þegar verð á 460 gramma makríl frá báðum löndum er skoðað sést að það er umtalsvert lægra á Íslandi en í Noregi. Það sem skýri þetta meðal annars sé að fram til ársins 2015 hafi nánast verið stundaðar olympískar veiðar á makríl og eitthvað hlaut undan að láta í meðferð hráefnisins og frystingunni.

„Norðmenn hafa byggt upp gríðarlega verðmætan markað í Japan og víðs vegar um heim og afhenda vöru af sambærilegum gæðum í mjög langan tíma. Markaðsstarfið, áreiðanleikinn og afhendingaröryggið hjá þeim hvað varðar makrílinn má líkja við það sem Íslendingar hafa gert í þorski. Að frátalinni stöðu Norðmanna í laxi kæmi mér ekki á óvart að makrílsala þeirra til Asíu, og þá helst til Japan, sé verðmætasta markaðsstaða sem Norðmenn eiga.“

Hann segir að þokast hafi í rétta átt hvað þetta varðar hér á landi. Þannig sé núna makríll sem var frystur fyrir tveimur árum úr frystigeymslu Royal Iceland ennþá eins og nýr. Nokkur önnur fyrirtæki hafi staðið rétt að málum og nefnir Davíð Freyr sérstaklega Jón Ásbjörnsson hf., sem hafi verið að greiða einna hæstu verð fyrir makríl undanfarin tvö til þrjú ár.

Davíð Freyr segir framleiðendur hafa almennt tekið sig á í þessum efnum. Makríll flæði t.a.m. á milli vinnsla þegar þannig standi á og samstarf sé á milli fyrirtækja þegar veiðin er hvað mest.

Auk vinnslu á shimesaba frystir Royal Iceland makríl á hefðbundinn máta og framleiðir tvær tegundir af stórum, heilfrystum makríl sem kallast „superior“ makríll sem hefur verið seldur til Bandaríkjanna og Evrópu í 5 kg kössum og inn í keðjur sushi-staða.

Alls framleiðir Royal Iceland vörur úr um 500 tonnum af makríl á ári.

Fimmfalda virðið

„Ný vara hjá okkur er sashimi makríll. Framleiðslan er ekki mikil en framlegðin er góð. Aðferðin er sú að frysta makrílinn fyrir dauðastirðnun og það mega ekki líða meira en tvær klukkustundir frá því fiskurinn er veiddur þar til hann hefur verið frystur. Þannig er hann hæfur sem sashimi makríll. Verðmæti fyrir þessa vöru er allt að því fimm sinnum hærra en fyrir hefðbundinn frystan makríl.“

Royal Iceland hefur einnig framleitt makrílflök og jókst framleiðslugetan um næstum helming fyrir tveimur árum þegar fjárfest var í sérhannaðri flökunarvél. Einnig framleiðir Royal Iceland sérstaka gerð makrílsósu sem heitir Garum. Framleiðslu á þessari gerð makrílsósu má rekja allt aftur að tímum Rómverja sem fundu aðferð til að fullnýta makrílinn, hausa, innyfli og annað. Aðferðin var sú láta hráefnið liggja í salti í stíum þar sem það sjálfmelti sig í upp undir eitt ár. Úr þessu hráefni var sósan Garum unnin.

Ígulkerjahrogn

Vinnsla á ediklöguðum makríl og loðnuhrognum stendur yfir allt árið hjá Royal Iceland. Fyrirtækið keypti nýlega litla verksmiðju í Póllandi sem er ætlað sinna þessari vinnslu einnig.

Uppistaðan í vinnslu Royal Iceland er engu að síður vinnsla úr loðnu-, þorsk- og síldarhrognum ásamt öðrum hrognum. Fyrirtækið vinnur einnig ígulkerahrogn í 100 gramma bakka. Meðal viðskiptavina er þriggja stjörnu Michelin staður á Ítalíu og aðrir „gourmet“-veitingastaðir. Ígulkerahrognin frá Royal Iceland er sennilega dýrasta vörutegundin í íslenskum sjávarútvegi. Nýtingin á ígulkeri upp úr sjó í það sem kemst í þennan gæðaflokk er einungis um 2%. Verðið endurspeglar þetta því kílóið er að fara á 15-20 þúsund krónur eftir gæðum og mörkuðum. Royal Iceland hefur líka markaðssett og selt sæbjúgu sem fyrirtækið hefur veitt sem og beitukóng og fleiri tegundir.

Ígulkerjahrogn er sennilega ein dýrasta sjávarafurð sem frá Íslandi kemur.