laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óvelkominn gestur sem gæti numið hér land

11. ágúst 2017 kl. 08:00

Hnúðlax hefur veiðst í 120 ám í Noregi og sjást þar í stórum torfum. Aldrei veiðst fleiri hérlendis á ári.

Rúmlega 800 tilkynningar hafa borist til norskra umhverfisyfirvalda um stangveidda hnúðlaxa á aðeins þremur vikum. Tilkynningarnar ná til 120 vatnasvæða um allan Noreg. Á sama tíma berast fréttir víða að úr íslenskum ám um slíkt hið sama, og hefur Hafrannsóknastofnun hvatt til þess að veiðimenn deili upplýsingum um veidda hnúðlaxa með stofnuninni.

Það er Norsk institutt for naturforskning (NINA) sem greindi frá þessum aflabrögðum í Noregi og sendi frá sér sérstaka fréttatilkynningu á þriðjudag.

Eva B. Thorstad, sérfræðingur hjá NINA, segir í fréttinni að upplýsingar séu einnig um að af þeim 800 hnúðlöxum sem þegar hefur verið tilkynnt um séu þeir gott sem allir tilbúnir í hrygningu. Veiðitölurnar segja þó ekki nema hálfa söguna. Fréttir berist frá Finnmörku, frá köfurum þar nyrðra, að þeir hafi talið 1.200 hnúðlaxa í Komagánni í Finnmörku, nyrsta fylki Noregs. Svipaða sögu er að segja úr fleiri ám á svæðinu. 

Kominn langt að
Hnúðlaxinn, sem einnig er nefndur bleiklax, tilheyrir ættkvísl kyrrahafslaxa. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru í norðanverðu Kyrrahafi, með hrygningarstofna austan þess í Bandaríkjunum og Kanada og vestan þess í Rússlandi, Japan og Kóreu. Hann er mest veidda laxategundin í Norður -Kyrrahafi, en hann er eingöngu veiddur í sjó og illa hæfur til manneldis þegar kynþroska er náð og því lítt eftirsóttur af veiðimönnum í ferskvatni, að því kemur fram í gögnum Hafrannsóknastofnunar [Veiðimálastofnunar], sem birtust sumarið 2015 þegar nokkuð hafði borið á fregnum af hnúðlaxi í afla veiðimanna. Laxarnir höfðu þá veiðst víðsvegar um landið og tilkynningar borist úr Þjórsá, Ytri Rangá, Hamarsá í Hamarsfirði, úr Skjálfandafljóti, Þorskafjarðará og Soginu.

Þar segir einnig að hnúðlax veiddist fyrst á Íslandi svo vitað sé árið 1960. Síðan þá hafa þeir veiðst af og til og eru taldir flækingar. 

„Ástæðuna fyrir því að hnúðlaxar koma fram í íslenskum ám má rekja til rússneskra tilrauna með útsetningu frjóvgaðra hrogna í ár á Kolaskaga. Hófust þær árið 1956 þar sem notuð voru hrogn úr stofni ættuðum frá suðurhluta Sakhalin eyju. Þær tilraunir gáfust illa og það var ekki fyrr en notuð voru hrogn úr norðlægari stofni frá Magadan héraði í Síberíu sem sjálfbærir stofnar mynduðust í Hvítahafi og Barentshafi. Síðan þá hafa þeir verið að nema land m.a. í Finnmörku í N-Noregi.“

Stofnarnir í Finnmörku hafa verið vaxandi allt frá síðustu aldamótum, en nú virðist sem mun meira af þessum laxi, sem er enginn aufúsugestur, sé á ferðinni. Það er þó ekki bundið við Noreg heldur hefur hans orðið vart í nokkru mæli í ám í Bretlandi, eins og stórar fréttaveitur gera sér mat úr. 

Kemur á oddatöluárum
Björn Þrándur Björnsson, prófessor í fiskalífeðlisfræði við Gautaborgarháskóla, hefur auga á þeirri þróun sem hér að ofan er lýst. 

„Greinilegt er að fiskurinn ratar ekki vel til baka og dreifir sér um allan sjó.  Nú virðast einhverjar nýjar sleppitilraunir vera í gangi, en ég veit ekki hvort það hafi verið staðfest af Rússum. Hnúðlaxar hafa ekki bara veiðst í Noregi í sumar heldur líka í nokkru magni á Bretlandi og það er þess vegna sem ég er forvitinn að vita hvort þessi laxategund er að veiðast á Íslandi í auknum mæli,“ segir Björn og bætir við að hnúðlaxa er helst að vænta annað hvert ár.

„Hnúðlaxinn er ein af þeim tegundum Kyrrahafslaxa sem deyr eftir hrygningu. Þar sem lífsferillinn er mjög staðlaður, seiði ganga til sjávar stuttu eftir klak og fiskurinn eyðir svo ári í sjó áður en hann gengur til hrygningar, þá eru hnúðlaxgöngur í mörgum ám aðeins annað hvert ár,“ segir Björn.

Reynslan sýnir reyndar að hnúðlaxa er helst að vænta hér á landi þegar ártalið ber uppá oddatölu. Það gæti bent til uppruna frá Finnmörku, en norskar rannsóknir hafa sýnt að oddatöluárgangur hafi fest þar rætur. 

Gæti numið hér land
Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa varað við því að ekki sé útilokað að hnúðlax geti numið land í íslenskum ám og þess vegna er mikilvægt að veiði slíkra fiska sé vandlega skráð. Sérstaklega er því hvatt til þess að stofnuninni sé greint frá því undantekningarlaust þegar hnúðlax veiðist hér, og sama hvar.

Ekki hefur umræðan þróast hérlendis í þá átt að vistkerfi íslenskra lax- og silungsveiðiáa stafi mikil hætta af hnúðlaxinum – en nýjustu fréttir af því að veiðimenn hafi sett í þrjá hnúðlaxa í Soginu og landað tveimur á dagparti vekur upp spurningar. Fyrst þeir settu í þrjá á stuttum tíma – hvað eru þá margir á ferðinni?

Norðmenn, hins vegar, hafa af hnúðlaxinum þungar áhyggjur, eins og vel sést á fréttaflutningi NINA. Þeir óttast að norskum ám stafi bein hætta af hnúðlaxinum, og þá bæði laxa- og silungastofnum. Reyndar gengur Eva B. Thorstad, sem skrifar, svo langt að ógnin nái til alls vistkerfisins. Það er í þeim anda sem hnúðlaxinn er ofarlega á svörtum lista NINA yfir framandi tegundir þar í landi. Þess utan hafa umhverfisyfirvöld hvatt til þess sama þar sem hnúðlax hefur veiðst í ám á Írlandi og norðanverðu Englandi

Spurningunni um hvort þær hættur sem Norðmenn taka svo alvarlega geti átt við hér á landi svarar Björn Þrándur skýrt: 

„Vitanlega. Ég get ekki séð að það sé einhver reginmunur á Noregi og Íslandi hvað þetta varðar.“

Veiddist fyrst á Íslandi árið 1960
Hnúðlax veiddist í Hítará á Mýrum 12. ágúst árið 1960 og var það í fyrsta sinn sem vitað er til að þessi laxategund hafi veiðst í íslenskri veiðiá. Hnúðlax sem einnig er nefndur bleiklax tilheyrir ættkvísl kyrrahafslaxa og eru náttúruleg heimkynni tegundarinnar við Kyrrahafið frá Asíu til Norður Ameríku. Stofnar hnúðlaxa eru þeir stærstu af tegundum kyrrahafslaxa. Hnúðlax er fremur smávaxinn að stærð og hefur stysta lífsferil kyrrahafslaxa og tekur hann ófrávíkjanlega tvö ár frá hrogni upp í kynþroska lax. 

Eins og aðrar tegundir kyrrahafslaxa hrygna hnúðlaxar á haustin, gjarnan neðarlega í ám en klekjast að vori. Seiðin hafa mjög þroskað sjógöngueðli og ganga nær umsvifalaust til sjávar eftir klak. Laxarnir dvelja síðan um 18 mánuði í sjó en ganga þá aftur til hrygningar í sína heimaá. Þessi sérstaki lífsferill veldur því að í sumum vatnakerfum hafa myndast hnúðlaxagöngur sem aðeins koma annað hvort ár, ýmist á jöfnum ártölum eða oddatölum. Innan sama vatnakerfis myndast erfðafræðilega aðskildir stofnar sem aldrei hittast og getur stofnstærð þeirra verið ólík þrátt fyrir að nota sömu ána sem hrygningarstöðvar.

Heimild: Sigurður Már Einarsson. Veiðimálastofnun 2015.