sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óvenjustór fiskur á Halanum

8. desember 2011 kl. 16:35

Frystitogarinn Örfirisey RE. (Mynd: Guðm. St. Valdimarsson).

Handflaka þurfti helming ufsaaflans því hann var of stór í flökunarvélarnar.

,,Við höfum verið á Halasvæðinu undanfarna daga og ástandið í hafinu er mjög gott. Það er mikið af loðnu á svæðinu og fiskurinn er vel haldinn og reyndar óvenjulega stór. Til marks um það má nefna að ufsi, sem við fengum um daginn, var það stór að það þurfti að handflaka um helming aflans vegna þess á flökunarvélarnar réðu ekki við svo stóran fisk.“
Þetta segir Trausti Egilsson, skipstjóri á Örfirisey RE, í viðtali á heimasíðu HB Granda. Þegar rætt var við hann var ferðinni heitið í áttina að Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi til þess að komast í var fyrir veðri og vindum.

,,Það er kolbrjálað veður og stórhríð. Ekkert veiðiveður og því dugar ekkert annað en að leita vars og bíða eftir því að veðrið gangi niður,“ segir Trausti.

Þorskkvóti Örfiriseyjar er ekki nema um 900 tonn og segir Trausti að auðvelt væri að veiða upp í þann kvóta á skömmum tíma.

,,Þetta er alltaf sami línudansinn. Þegar við förum hingað norður þá er markmiðið að komast í blandaðan afla, spara þorskinn og reyna að fá sem mest af ufsa og ýsu. Því miður þá virðast þessar fisktegundir kjósa að synda saman og það er því eins gott að fara varlega við veiðarnar.“

Nánar er rætt við Trausta á heimasíðu HB Granda.