mánudagur, 13. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óverulegt magn í stóru myndinni

Guðsteinn Bjarnason
24. maí 2020 kl. 09:00

Birkir Bárðarsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir ekkert nýtt að loðna komin nálægt hrygningu finnist seint að vori fyrir norðan land. Fyrir stuttu birtust fréttir af loðnu kominni að hrygningu, þó langt sé liðið á maímánuð.

„Ég veit ekkert um magnið núna, en við höfum verið að fá fréttir að norðan að það sé einhver loðna þarna á ferðinni sem sé að nálgast hrygningu. Við höfum fengið fréttir af þessu úr Eyjafirði og við Grímsey og víðar. Það eru dæmi um að eitthvað af loðnu hafi verið að þvælast og hrygna, jafnvel þegar lengra líður á sumarið, en hingað til hefur það verið talið óverulegt magn í stóru myndinni.“

Birkir segir ekki vitað af hverju þetta gerist. Tvær mögulegar skýringar komi þó jafnan upp í hugann.

„Maður getur spurt sig hvort einhver loðna sé að mæta seinna á svæðið vegna þess að hún hafi kannski gengið lengra til norðurs eða vesturs í fæðugöngunni. Svo er annar möguleiki að það sé einhver hluti stofnsins sem er einfaldlega með síðbúna hrygningu. Þetta er samt eitthvað sem við vitum ekki.“

Hann segir Hafrannsóknastofnun vissulega hafa hug á að rannsaka þetta betur, og fyrir nokkrum árum hófst átak í þá veru að safna loðnulirfum að sumarlagi.

Lirfum safnað kringum allt land

„Sumartíminn er svo sem ekki hluti af almenna stofnmatstímabilinu hjá okkur. Það hefur verið í janúar-febrúar og svo aftur í september. En við höfum verið að leita leiða til að átta okkur betur á því hvað er að gerast á sumrin líka. Eitt af því sem við erum að gera núna í sumar er að við munum safna loðnulirfum og seiðum í leiðöngrum okkar, bæði vorleiðangrinum allt í kringum landið sem stendur yfir núna, og svo aftur í umhverfismælingum okkar í ágúst. Við erum þá að safna loðnulirfum og reyna að átta okkur á því út frá dreifingu þeirra hvað er að gerast. Við munum líka aldursgreina þær og reyna að rekja til baka hvaðan þær eru að koma, frá hvaða hrygningarstöðvum.“

Þetta átaksverkefni hófst upp úr 2017 og hefur verið í þróun síðan.

„Svo höfum við líka verið að velta fyrir okkur fleiri hugmyndum það hvort og þá hvernig við getum betur fylgst með því sem er að gerast á sumrin, til dæmis fyrir norðan. Við höfum verið að spá í hvort við getum notað smábáta í það, en höfum ekki ennþá náð að fjármagna svoleiðis rannsókn.“

Niðurstöður loðnuleiðangra stofnunarinnar í vetur hafa verið þær að líklega sé stofnstærðin um 250 þúsund tonn. Það dugði þó engan veginn til þess að veiðar yrðu ráðlagðar.

Tvö ár í röð hefur Hafrannsóknastofnun ekki ráðlagt neinar loðnuveiðar hér við land. Góðar horfur eru þó á loðnuveiði næsta ár því bráðabirgðaráðgjöfin hljóðar upp á 170 þúsund tonn.

Loðnuveiðar voru síðast stundaðar 2018, en betri horfur eru þó fyrir næsta ár. MYND/Daði Einarsson