mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Pangasius leiðir aukna fiskneyslu í Þýskalandi

4. október 2009 kl. 11:00

Þjóðverjar borða nú meira af fiski en nokkru sinni fyrr og nýja eldistegundin, pangasius, stjórnar þeirri þróun, að því er fram kemur í frétt á vef IntraFish.

Árið 2007 borðaði hver Þjóðverju að meðaltali 15,5 kíló af fiski en í fyrra var neyslan 15,6 kíló. Því er spáð að fiskneyslan í ár fari í 16 kíló að meðaltali á mann og er það sögulegt met.

Alaskaufsi er enn mest selda fisktegundin í Þýskalandi með um 24,7% markaðshlutdeild. Neysla á ufsanum hefur þó dregist saman. Búist er við því að samdrátturinn haldi áfram á næsta ári þar sem reiknað er með að ufsakvóti verði skorinn niður í Bandaríkjunum.

Síld er í öðru sæti með um 20,8% markaðshlutdeild, lax er í þriðja sæti með 11,1% og túnfiskur í því fjórða með 10,2%. Pangasius er með um 4,4% af þýska sjávarafurðamarkaðnum miðað við magn.

Á öllu árinu 2007 voru flutt inn 16.256 tonn af pangsius frá Víetnam. Á fyrri árshelmingi 2008 jókst innflutningur á pangasius til Þýskalands um 90% miðað við sama tíma árið áður. Fyrstu sex mánuð ársins 2008 fluttu Þjóðverjar inn 15.280 tonn af frosnum flökum af pangasius. Reiknað er með áframhaldandi aukningu í ár.

Önnur áhugaverð þróun á markaðnum í Þýskalandi er sú að sala í lágvöruverðsverslunum eins og Aldi og Lidl er í fyrsta sinn komin yfir 50% af sölu sjávarafurða. Hins vegar hefur það ekkert breyst að 35% af sjávarafurðum er selt frosið, 31% niðursoðið og niðurlagt, 13% er skelfiskur og 8% ferskur fiskur.

Heimild: IntraFish.