þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Polar með aukna sölu á toghlerum í Rússlandi

6. október 2018 kl. 06:00

Atli Már Jósafatsson, framkvæmdastjóri Polar toghlera. MYND/GUGU

Stofnar fyrirtæki í Rússlandi

Mikill stígandi hefur verið í sölu á toghlerum fyrirtækisins Polar í Rússlandi undanfarin misseri. Atli Már Jósafatsson, framkvæmdastjóri Polar, átti í talsverðum önnum á sjávarútvegssýningunni í Pétursborg, því auk þess að kynna vörur fyrirtækisins var erindi hans til borgarinnar að undirbúa stofnun dótturfyrirtækis í Rússlandi til að vera betur undirbúinn undir þá miklu endurnýjun og uppbyggingu sem á sér stað í Rússlandi.

gugu@fiskifrettir.is

Atli Már segir söluna til Rússlands hafa aukist verulega á síðustu fjórum til fimm árum. Polar er í samstarfi við rússneska fyrirtækið Fishing Service frá Kaliningrad sem hefur milligöngu um sölu á hlerum. Þeirra kjarnastarfsemi eru veiðarfæri, einkum flotttroll. Samstarfið hefur staðið í talsverðan tíma og greiddi Polar rússneska fyrirtækinu leið inn á íslenskan markað sem nú er þjónustað af Ísfelli.

„Við seldum fyrir um sjötíu milljónir króna í fyrra til Rússlands í fyrra, þar af mest til Austur-Rússlands. Við seljum stöku pör til Murmansk og töluvert af hlerum til Kaliningrad. Þá hlera smíðum við í Litháen þannig að flutningaleiðin yfir Rússlands er stutt. 90% hleranna sem við seljum til Austur-Rússlands eru smíðaðir í Kína. Við höfum haft kínverska verktaka í um tíu ár sem smíða hlera samkvæmt okkar teikningum. Þarna höfum við okkar eigin eftirlitsmann sem fylgist með okkar framleiðslu og tekur hana út,“ segir Atli Már.

Á 400 hlerar til Indlands

Hann segir endurnýjunina sem nú er hafin í Rússlandi stækka markaðinn með toghlera til muna í landinu og hafi hann þó verið stór fyrir. Polar er að smíða fyrir nýsmíðar og endurnýjun skipa. Mörg hundruð togskip eru í rekstri í Rússlandi og Atli Már bendir á að ekki standi til að leggja þeim öllum þó mikið kraftur sé í nýsmíði skipa. Markaðurinn er því stór.

Rússneski markaðurinn var í fyrra um einn þriðji af veltu Polar. Einnig fer talsvert til Bretlands, Spánar og mikið til Afríkulanda.

„Við seldum nokkur pör til Indlands fyrir um þremur árum. Það var vel tekið í vöruna og það spratt upp mikið af eftirlíkingum í kjölfarið. En upp úr áramótum virðast Indverjar hafa séð greinilega mun á gæðum hleranna og virkni þeirra. Salan fór því á flug á ný. Á þessu ári höfum við sent á fjórða hundrað pör af hlerum. Þetta eru hlerar á bilinu 1 og upp í 1,2 fermetra.“

Atli Már er að ganga frá stofnun dótturfélags í Rússlandi og ætlunin er að ráða tæknimenn fyrir Vestur- og Austur-Rússlands sem verði þá Fishing Service innan handar. Nú þegar hefur einn maður verið ráðinn.

„Við fáum hvatningu frá okkar viðskiptavinum að smíða toghlerana hér í Rússlandi. Þjóðarstolt Rússa hefur aukist mjög í þessa veru. Auðvitað eiga þeir að vera sjálfir sér nægum í þessum efnum.“

Polar hefur í nokkur ár unnið að þróun fjarstýrðra toghlera af gerðinni Poseidon sem Fiskifréttir hafa áður sagt frá. Nú er fyrirtækið að setja saman 14 fermetra par sem verður prófaður í seinnipart næsta mánaðar á síld á Polar Amarok. Drifmótorarnir eru  smíðaðir í Danmörku en auk þess koma tæknilausnir frá Scanmar og Naust Marine. Vængjum á hlerunum er stýrt þráðlaust ofan úr brú. Einkaleyfi Polar á þessari tækni gengur út á sjálfstæða stýringu á hverjum væng toghlerans. Þannig má halla honum inn eða út og stýra trollinu eins og þörf krefur.