þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Pólskt fiskvinnslufólk á heimleið

Guðjón Guðmundsson
7. desember 2018 kl. 10:12

Ásdís V. Pálsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands.

Snúa heim til að nýta sérþekkingu

Ásdís V. Pálsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands, hefur komið víða að í störfum innan sjávarútvegsins og situr nú í stjórn Félags kvenna í sjávarútvegi. Hún segir að nú sé að alast upp kynslóð sem hefur nær enga tengingu við fiskveiðar og fiskvinnslu og hafi fyrirframgefnar hugmyndir um að störf innan sjávarútvegs séu ekki eftirsóknarverð.

Ásdís segir jafnframt að fjöldi fiskverkafólks af pólskum uppruna sem hér hafi starfað árum saman vill nú koma í raunfærnimat hjá Fisktækniskólanum til að geta menntað sig í greininni. Margir þeirra hugi að brottflutningi til að hefja fiskvinnslustörf í sínu heimalandi og þá sé gott að hafa á ferilskránni menntun í fiskvinnslu.

Ásdís vann á árum áður hjá Þormóði Ramma á Siglufirði og Síldarvinnslunni á Neskaupstað. Hún kom að skemmtilegu verkefni þegar Róbert Guðfinnsson setti upp fiskvinnslu í Mexíkó með búnaði úr aflögðu frystihúsi Þormóðs Ramma. Undanfarin fimm ár hefur Ásdís verið verkefnisstjóri hjá Fisktækniskóla Íslands þar sem hún sér m.a. um Marel vinnslutækni og grunnnámsbrautina og fer gjarnan inn í sjávarútvegsfyrirtæki með nemendur í heimsóknir. Hún hefur samanburðinn hvað varðar þá tækniþróun sem orðið hefur í greininni. Hún segir að hin mikla sjálfvirkni sem komin er í fiskvinnsluna hafi fækkað störfum en þó einkum erfiðum og einhæfum störfum. Vinnsla á sjávarafurðum sé að miklu leyti að breytast í eftirlitsstörf.

„Ungt fólk sækist gjarnan eftir því að fara í háskólanám og aldrei hefur verið meiri aðsókn í sjávarútvegsfræði í Háskólanum á Akureyri. Vandinn er hins vegar sá að nemendur sem þar hefja nám hafa fæstir unnið í fiski. Við þurfum að vera stolt af sjávarútvegnum og upplýsa börn okkar strax á grunnskólaaldri um hvað fiskveiðar og fiskvinnsla snýst. Í grunnnáminu hjá Fisktækniskólanum reynum við að kynna öll störf innan sjávarútvegsins og þau eru mörg. Þannig getum við myndað brú úr grunnskólanum yfir í framhaldsnám. Sjávarútvegur er nefnilega líka hátækniiðnaður og líftækniiðnaður svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Ásdís.

Stefnum í sömu átt og Norðmenn

Ásdís heldur utan um raunfærnimat í Fisktækniskólanum sem hún segir mikilvægan þátt í starfi skólans.  Raunfærnimatið er samstarf er við símenntunarmiðstöðvar um allt land. Á annað hundruð manns hafi farið í gegnum raunfærnimatmatið.

„Upp úr 1989-1990 fóru Pólverjar að koma til landsins til þess að vinna í fiski. Þeim hefur fjölgað mjög í gegnum árin og eru oft uppistaðan í starfsmannahóp fiskvinnslufyrirtækja. Þeir hafa þeir öðlast sérþekkingu við sín störf í fiskvinnslum sem eru orðnar mjög sérhæfðar. Nú hafa Íslendingar og Pólverjar tekið sig saman og eru að setja upp vinnslur í Póllandi og Lettlandi. Pólverjar, sem hafa nánast haldið fiskvinnslunni gangandi á Íslandi síðustu árin, eru nú orðnir eftirsóttir starfskraftar í sínu heimalandi. Þar er mikill uppgangur og við höfum við heyrt af því að nú sé þeir farnir að huga að því að hverfa til síns heima. Af þeim sökum hafa Pólverjar í auknum mæli sótt menntun til okkar og fara í gegnum raunfærnimatið til að stytta námið,“ segir Ásdís.

Óunninn fiskur til Evrópu

Hún bendir á að útflutningur á óunnum fiski hafi aukist mikið síðustu misseri. Íslendingar eru að missa sérhæfðan starfskraft úr landi og senda fiskinn óunninn til vinnslu til dæmis til Póllands. Að þessu leyti stefnum við í sömu átt og Norðmenn þar sem fiskvinnsla er lítil og fiskurinn fluttur að mestu óunninn suður eftir Evrópu.

Ásdís hefur mikla reynslu af framleiðslustýringu og var t.a.m. í sex ár framleiðslustjóri hjá Nýfiski í Sandgerði. Henni svíður útflutningur á óunnum fiski á sama tíma og hátæknivæddar fiskvinnslur á Íslandi með afkastamiklum vatnskurðarvélum og öllum nútíma búnaði eru ekki nýttar nema hluta úr sólarhring.  Sumar vinnslurnar vinni allt upp í 80 tonn af þorski á átta klukkustundum og eftir það standi þessi fjárfesting ónotuð.