mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Prófa að toga með opinn poka

27. júlí 2019 kl. 07:00

Ný Vestmannaey VE kemur til hafnar. MYND/GA

Nýja skipið í Vestmannaeyjum, Vestmannaey VE, fékk höfðinglegar móttökur við komuna heim í síðustu viku.

„Þetta lítur allt mjög vel út en við erum svolítið að reyna að átta okkur á þessu,“ segir Guðmundur Alfreðsson, útgerðarstjóri Bergs-Hugins. „Þetta verður svolítið öðruvísi. Það eru fáir takkar en margir snertiskjáir. Það verður gaman að sjá hvernig þetta virkar.“

Vestmannaey er smíðuð í Noregi hjá Vard-skipasmíðastöðinni, fyrsta skipið af alls sjö sem Vard smíðar fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki. Bergur-Huginn fær annað skip í haust, Bergey VE, og svo koma þau hvert af öðru til landsins næstu mánuðina.

Tæknibúnaðurinn er frá Sea-Q, dótturfyrirtæki Vard í Noregi, og öllu er stýrt með tölvu. Vélarýmið verður vaktlaust en í staðinn kemur fullkominn viðvörunarbúnaður.

Togspilin eru einnig með nýrri tegund af mótorum, með svonefndum sísegli sem gerir það að verkum að þeir hafa miklu meira snúningsvægi á litlum snúning.

„Þetta þýðir að gírinn þarf ekki að vera eins mikið niðurgíraður, sem gerir það að verkum að allt verður mýkra,“ segir Guðmundur.

Hringekja í lestinni
Vinnslubúnaðurinn á millidekkinu verður settur í skipið á Akureyri eftir nokkrar vikur, en þessa stundina er Vélaverkstæðið Þór í Vestmannaeyjum að ganga frá færibandi í lestina.

„Færibandið er hringband sem fer út í alla kanta í lestinni. Fiskurinn kemur niður í miðjunni og svo getur færibandið snúist í allar áttir, þannig að það þarf ekkert að vera með rennur aukalega. Við erum búin að vera með svona færiband í tíu ár. Við byrjuðum á þessu á hinum bátunum sem voru smíðaðir í Póllandi. Vélaverkstæðið Þór setti það upp fyrir okkur og þeir eru búnir að selja mikið af þessu hér í Eyjum.“

Tvær vélar eru í skipinu, sem einnig breytir töluverðu.

„Samkvæmt reynslu Norðmanna, sem eru farnir að gera mikið af þessu, á togkrafturinn að verða betri, sérstaklega þegar bræla er. Þá á þetta að nýtast betur og minnka alla olíueyðslu.“

Toga með opinn poka
Tíminn verður notaður til að prófa skipið betur.

„Við ætlum að taka veiðarfæri um borð þegar búið er að græja lestina. Svo förum við fljótlega fyrir Þjóðhátíð með opinn poka að prófa, upp á það að geta líka látið hina vita ef eitthvað er að.“

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, sagði í spjalli við Fiskifréttir í síðustu viku að sér lítist vel á nýja skipið. „Þetta er bara þannig skip. Það er svo margt jákvætt og spennandi við þetta og við vonum að þetta fari betur með áhöfn og meðhöndlun afla.“

Birgir Þór Sverrisson skipstjóri, sem sigldi Vestmannaeynni heim frá Noregi, sagði það tilhlökkunarefni að hefja störf á nýja skipinu. Fyrsta reynslan af því hafi verið góð. Skipið sé töluvert breiðara en verið hefur og til dæmis nýbreytni að hafa tvær skrúfur.

„Svo er miklu stærra millidekk og allur aðbúnaður miklu betri. Það er líka geypilega mikill tæknibúnaður í þessu skipi.“

Öllum ber þeim saman um að samskiptin við VARD hafi gengið vel. Samið var um smíði skipanna sjö í einu, og kom hugmyndin fyrst upp hjá Bergi-Hugin en fljótlega bættust Samherji, Gjögur og loks Skinney Þinganes í hópinn.