föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fylgt í hvívetna

3. júlí 2020 kl. 11:01

Mynd/Þorgeir Baldursson

Nýliðunarbrestum í nokkrum tegundum á að mæta með frekari rannsóknum, segir sjávarútvegsráðherra.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir næsta fiskveiðiár og fylgir hún vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Ráðgjöf stofnunarinnar byggir á því að nýta stofna miðað við hámarksafrakstur að teknu tilliti til vistkerfis- og varúðarnálgunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er lögð til 9% hækkun á aflamarki ýsu, sem verður því 45.389 tonn fiskveiðiárið 2020/2021. Ástæða hækkunarinnar eru bættar nýliðunarhorfur. Jafnframt er lögð til 6% lækkun á aflamarki þorsks, úr 272.411 tonnum í 256.593  vegna lækkunar í stofnmælingum botnfiska. Nýliðunarvísitölur nokkurra stofna eins og hlýra, gullkarfa og blálöngu hafa verið lágar í lengri tíma og er tekið mið af því í ákvörðun um heildarafla.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir í tilkynningunni:

„Ábyrgar fiskveiðar og sjálfbær nýting fiskistofna eru forsenda þess að íslenskur sjávarútvegur, og hin fjölbreytta starfsemi sem byggir á greininni, viðhaldi stöðu sinni í fremstu röð á heimsvísu. Stjórnun fiskveiða á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar er lykilatriði til að tryggja þessar forsendur, og þannig um leið ein meginstoð íslenskrar fiskveiðistjórnunar. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir næsta fiskveiðiár ber með sér að okkar helstu nytjastofnar eru sterkir. Hins vegar blasa við nýliðunarbrestir í nokkrum tegundum sem Hafrannsóknastofnun í samráði við ráðuneytið munu þurfa að mæta með frekari rannsóknum.“

Í meðfylgjandi töflu má sjá ákvörðun um heildaraflamark fyrir einstakar tegundir.

Aflamark fyrir mikilvæga uppsjávarstofna verður ákveðið síðar á árinu.