miðvikudagur, 26. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðherra bregst við gagnrýni

Guðsteinn Bjarnason
16. janúar 2020 kl. 10:15

Stjórn Landssambands smábátasjómanna á fundi með Kristjáni Þór Júlíussyni ráðherra. MYND/Axel Helgason

Drög að reglugerð um breytt fyrirkomulag við grásleppuveiðar hafa fengið afar hörð viðbrögð frá grásleppukörlum. Tugir umsagna hafa borist inn á Samráðsgátt stjórnvalda en frestur til að skila inn umsögnum rann út 15. janúar.

Síðastliðinn föstudag kallaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stjórn Landssambands smábátaeigenda (LS) á sinn fund til að ræða fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi smábátaveiða.

Drög að reglugerð um þetta efni hafa fengið afar hörð viðbrögð og tugir umsagna borist inn á Samráðsgátt stjórnvalda.

Að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra LS, ríkti góður andi á fundinum og var ráðherra sagður hafa tekið vel í að gera verulegar breytingar á drögunum í ljósi þessara athugasemda.

Örn telur ljóst að fallið verði frá hugmyndum um að fækka grásleppunetum niður í 3.750 metra, byrjunartíminn 1. mars verði væntanlega óbreyttur líka og tekið verði tillit til fleiri athugasemda.

LS sendi umsögn um reglugerðardrögin þar sem því er harðlega mótmælt að hróflað verði við heildarlengd neta.

„Á vertíðinni 2013 var heimilt að hafa 200 net að hámarki á bát, en hafði áður verið 300. Þessu var síðan aftur breytt ári síðar þegar miðað var við heildarlengd neta í sjó 7,5 km," segir í umsögninni. "Við breytinguna heyrði það sögunni til að fjórir væru í áhöfn grásleppubáta. Þeim fækkaði niður í þrjá að hámarki og hefur tilhneigingin verið sú að bátum með tvo í áhöfn fari fjölgandi. Sú tillaga sem hér blasir við mun leiða til að enn færri verði í áhöfn, þeim fækki niður í einn í mörgum tilfellum. Færri munu því hafa atvinnu og ásættanlegar tekjur af grásleppuveiðum. Ennfremur mun tækifærum fyrir nýliðun í greininni fækka. "

Ennfremur segir í umsögn LS: "Aðilar sem stundað hafa grásleppuveiðar í tugi ára eru á einu máli um að varhugavert sé að vera einn á grásleppu. Enginn til að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis. Fækkun neta mun því leiða til meiri áhættu við veiðarnar sem LS frábiður sig að vera þátttakandi í.

Jafnframt því sem hér hefur verið nefnt er vandséð að fækkun neta leiði til þess að draga muni úr meðafla, þar með talin spendýr og fuglar."

Veiðar leggist af

Af þeim umsögnum sem sendar hafa verið inn á Samráðsgáttina má sjá að langumdeildast er ákvæði 9. greinar draganna, þar sem segir að á hverjum bát sé að hámarki heimilt að vera með samanlagða netalengd upp á 3.750 metra.

Axel Helgason, fyrrverandi formaður LS, segir í sinni umsögn að með þessu sé vísvitandi verið að leggja niður forsendu grásleppuveiða:

„Það er alveg klárt að ef þessu verður haldið til streitu, þá leggjast niður aðrar veiðar en hobbý veiðar á grásleppu og líklegt að dagafjöldinn sem þurfi til að ná meðalráðgjöf Hafró verði ekki minni en allt tímabilið, eða um 150 dagar,“ segir Axel.

„Augljóst er að verði þessi reglugerð að veruleika verður mjög óhagstætt að stunda hrognkelsaveiðar og munu þær að mestu leggjast af,“ segir í athugasemd frá Örvari Marteinssyni frá Ólafsvík.

Hvetja til kvótasetningar

Margir þeirra sem senda inn umsagnir sjá ástæðu til að hvetja stjórnvöld til þess þess að grásleppan verði kvótasett frekar en að grípa til þess að fækka netum. Það yrði árangursríkara við að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt.

„Með þessari reglugerð á sennilega að vinna að því að draga úr meðafla við grásleppuveiðar og bæta umgengni við auðlindina, auk þess að auðvelda eftirlit. Öllum þessum markmiðum væri fullnægt með því að stjórna grásleppuveiðum með aflamarki, auk þess að það myndi bæta öryggi sjómannanna. Rökin fyrir ,,kvótasetningunni“ eru ekki síst að þá geta menn tekið upp netin þegar veður eru vond án þess að vera að missa af einhverju“, skrifar Örvar Marteinsson frá Ólafsvík, en hann situr í stjórn LS.

„Það eina rökrétta í stöðunni er að setja grásleppuna í aflamark. Þannig er hægt að hagræða frekar og hafa aukinn sveigjanleika við veiðarnar,“ skrifar Valentínus Guðnason á Stykkishólmi, en hann situr í grásleppunefnd LS fyrir Smábátafélagið Snæfell.

„Menn hafa þá frekar tök á því að forðast meðafla, þ.á m. þorsk, fugla eða sel, því menn vita þá nákvæmlega hvað menn mega veiða innan þess heildar tímaramma sem gefinn er.“

Kvótasetningin umdeild

Nýlegar hugmyndir stjórnvalda um kvótasetningu grásleppu hafa reyndar fengið misjafnar viðtökur meðal smábátasjómanna.

Á aðalfundi LS í haust var tillaga um kvótasetningu naumlega felld. Svipuð niðurstaða fékkst þegar LS lét gera skoðanakönnun meðal félaga sinna haustið 2018 þar sem fram kom að nærri 55 prósent svarenda vildu óbreytt fyrirkomulag veiðanna.

Axel Helgason bendir hins vegar á, í umsögn sinni um reglugerðardrögin, að ef sá hópur sem hafði ekki stundað grásleppuveiðar undaliðnar 6 vertíðar var tekin út, þá var meirihluti svarenda fylgjandi kvótasetningu.“

Hann segir mikilvægt að hafa þetta í huga „og hvet ég ráðherra til að gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpi um kvótasetningu á grásleppu til að koma því í gegn fyrir komandi vertíð. Ef þessi drög verða óbreytt að reglugerð fyrir næstu vertíð er klárt að það verður enn einn naglinn í líkkistu smábátaútgerðar við Ísland.“

Viðsnúningur í meðaflamálum

Í áfangaskýrslu vinnuhóps á vegum ráðuneytisins segir að aðaláherslan hafi verið á „átaksverkefni í eftirliti og hvernig fá megi sjómenn til að bæta meðaflaskráningu.“ Jafnframt er tekið fram að höfð verði „hliðsjón af skýrslu Hafrannsóknastofnunar um meðafla fugla og spendýra 2014-2018.“

Í þeirri skýrslu kemur fram að meðafli við grásleppuveiðar hafi verið að meðaltali eitt sjávarspendýr í hverjum eftirlitsróðri og 2,4 fuglar. Í uppfærðri skýrslu síðasta haust eru tölurnar svipaðar, en þó örlítið hærri.

Landssamband smábátaeigenda hefur ítrekað gagnrýnt þessa skýrslu Hafrannsóknastofnunar og segir að hún hafi verið „illa unnin og ómarktæk með öllu,“ eins og tekið er fram í umsögn LS við reglugerðardrögin: „Það er mat LS að meðafli fugla og spendýra við grásleppuveiðar hafi farið minnkandi á undanförnum árum.“

Í umsögn Axels Helgasonar, fyrrverandi formanns LS, um reglugerðardrögin bendir hann á að frá árinu 1982 og allt til ársins 2017 hafi Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem hét reyndar Landssamband íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ) til ársins 2012, beinlínis greitt þeim sem skiluðu inn kjálkum af landssel og útsel verðlaun. Þetta var beinn hvati til að veiða sel sem meðafla, og Axel nefnir dæmi af grásleppukarli sem árið 2016 fékk tæpar 500 þúsund krónur greiddar frá SFS fyrir meðafla útsels. Þessi fjárhæð var um tíu prósent af aflaverðmæti grásleppu þess báts það árið.

Býsna snöggur viðsnúningur hefur orðið á afstöðu íslenskra stjórnvalda til selveiða undanfarið. Nú stuttu fyrir jól tók gildi reglugerð um bann við selveiðum hér við land, en þó með undantekningu því bændur geta sótt um undanþágu til takmarkaðra nytja á sel til eigin nytja innan netlaga.

Bandaríkin stjórna

Bandarísku lögin um verndun sjávarspendýra, Marine Mammal Protection Act (MMPA), hafa greinilega haft þarna veruleg áhrif. Það var einmitt árið 2017 sem bandarísk stjórnvöld tóku að láta þau boð út berast að innan fárra ára myndu þau stöðva innflutning á fiski frá veiðum sem valda sjávarspendýrum skaða. Þar með beindist athyglin að grásleppuveiðum hér heima vegna þess að selur hefur í nokkrum mæli komið í grásleppunet.

„Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu má heildarfjöldi sela við veiðar í lögsögunni ekki fara upp fyrir 36 dýr til að uppfylla viðmið MMPA,“ segir Axel. „Alvarleiki stöðunnar er einfaldlega að stjórnvöld virðast ætla að láta eftir við stjórn fiskveiða á Íslandi öfgum náttúruverndasinna sem náðu í gegn fyrir fjórum áratugum lögum sem voru svo fáránleg að stjórnvöldum í USA datt ekki í hug að framfylgja fyrr en að náttúruverndarsinnarnir unnu dómsmál þar um fyrir nokkrum árum.“

Bandarísku reglurnar tóku gildi 1. janúar 2017 og þar er öllum löndum sem selja fisk til Bandaríkjanna gefinn fimm ára frestur til að gera bandarískum stjórnvöldum grein fyrir því hvernig þau hyggjast tryggja að sjávarspendýr verði ekki fyrir tjóni af völdum veiða. Sá frestur rennur út í lok ársins 2021, þannig að allt bendir til þess að árið 2022 muni Bandaríkin loka fyrir innflutning á fiski úr veiðum sem valda selum eða öðrum sjávarspendýrum skaða, en hér á landi er þar einkum um netaveiði á grunnslóð að ræða.

Hlunnindi

Sitt sýnist þó hverjum um meðaflann. Í umsögn frá Kára Borgari Ásgrímssyn segist hann hafa litið á það sem „hlunnindi að fá stöku sel eða svartfugl í netin og það er sannarlega ekki eitthvað sem við hendum, þetta er veislumatur. Því miður hefur verið minni svartfugls veiði hjá mér undanfarin ár, en selveiði er alltaf að aukast. Það hlýtur að teljast eðlilegt þegar markvissar selveiðar eru ekki lengur stundaðar.. Ég veit það allavega að það hefur ekki verið meira af landsel við NA land síðustu 35 árin, og trúlega mikið lengur.“