miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðherra breytir reglugerð um aukaafurðir

31. ágúst 2011 kl. 11:08

Um borð í frystitogara (Mynd: Kristinn Benediktsson).

Hagsmunaaðilar telja áfram að margt í henni sé óarðbært.

Sjávarútvegsráðherra hefur að höfðu samráði við útgerðaraðila og stofnanir breytt reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða. Með breytingunni er aðlögunarfrestur útgerðaraðilar lengdur og ýmis atriði gerð markvissari og skýrari, segir í frétt frá ráðuneytinu en bætt við að eftir sem áður séu mikilvæg skref stigin í þá átt að bæta nýtingu sjávarafla og bæta umgengnina við sjávarauðlindina.

Eins og kunnugt er mætti fyrri reglugerð, sem gefin var út í júlí sl., mikilli andstöðu hagsmunaðila en hún skyldaði útgerðir til að koma með allan afla að landi, þar með talið lifur, hausa, hryggi og afskurð. Töldu þeir að með þessu væri verið að þvinga útgerðir til þess að gera hluti sem væru óarðbærir og skylda sjómenn til þess að vinna kauplaust tímunum saman. Meðal þess sem gert var skylt að hirða var karfahausar en það hefur verið fellt út í nýju reglugerðinni.

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ sagði í samtali við Fiskifréttir að enda þótt einhverjar lagfæringar hefðu verið gerðar á reglugerðinni stæði hitt eftir að áfram væri gerð krafa um að hirða hluti sem ekki svaraði kostnaði að hirða. Sem dæmi nefndi hann  lifur á frystitogurum. Árni Bjarnason forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins tók í sama streng og sagði að ef hirða ætti lifur yrði að umturna vinnsludekki frystitogaranna með tilheyrandi kostnaði sem aldrei yrði endurheimtur á líftíma skipanna.