laugardagur, 27. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðherra stöðvar útstreymi þorsks

23. febrúar 2021 kl. 11:00

Loðnan veidd. MYND/Þorgeir Baldursson

Ný reglugerð bannar viðskipti með krókaaflamark í þorski í skiptum fyrir loðnu á skiptimarkaði Fiskistofu.

Fyrr í mánuðinum barst Fiskistofu boð í 1.066 tonn af loðnu í skiptum fyrir 732 tonn af þorski úr krókaaflamarkskerfi. Landssamband smábátaeigenda gerði athugasemd við að Fiskistofa hafi tekið tilboðinu og vakti síðan athygli Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á málinu.

Ráðherra brást skjótt við og undirritaði þann 19. febrúar reglugerð sem gerir það óheimilt að bjóða krókaaflamark í skiptum fyrir loðnu á skiptimarkaði. Reglugerðin var birt í Stjórnartíðindum í gær, en LS greinir frá þessu öllu á vef sínum.

„Með undirritun reglugerðarinnar hefur Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra komið í veg fyrir að framhald verði á slíku útstreymi þorsks úr krókaaflamarkskerfinu,“ segir LS.

Jafnframt greinir LS frá því að Fiskistofa hafi túlkað tilboðið þannig „að ekki væri ákvæði í reglugerð sem bannaði að því yrði tekið né að loðnan væri flutt yfir á krókaaflamarsksbátinn.“

Krókaaflamarksbáturinn er Kristján HF, sem er 30 tonna bátur gerður út á línu. Að lokinni færslu loðnukvótans yfir á Kristján HF var loðnan flutt yfir á uppsjávarskip Brims, Víking AK, eins og sjá má á aflastöðulista Fiskistofu.

LS sagði upphaflega það hafa vakið „sérstaka athygli að krókaaflamarksbáturinn Kristján HF lætur frá sér 732 tonn af þorski og fær í staðinn 1.066 tonn af loðnu. Hlutfallið 0,687 sýnir að loðnan er afar dýrmæt um þessar stundir þar sem ígildastuðull hennar var 0,13 á fiskveiðiárinu 2019/2020.

Annar vinkill er sá að veiðigjald fyrir hvert kíló af lönduðum þorski á árinu 2021 er 16,63 kr/kg, en á loðnu var það á síðasta ári 32 aurar.“