laugardagur, 6. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðleggja veiði á um 22.000 tonnum af loðnu

16. desember 2020 kl. 19:17

Leiðangurslínur og dreifing loðnu í desember 2020

Stærð hrygningarstofnsins mældist 487.000 tonn. Um er að ræða fyrstu vetrarráðgjöf sem verður endurskoðuð að loknum mælingum í janúar–febrúar 2021.

Niðurstöður loðnumælinga dagana 6. - 11. desember 2020 liggja nú fyrir. Stærð hrygningarstofnsins mældist 487.000 tonn. Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150.000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Samkvæmt því leiðir þessi mæling til veiðiráðgjafar upp á 21.800 tonn veturinn 2020/21 og kemur í stað fyrri ráðgjafar frá því í október um engan afla.

Mælingarnar voru gerðar á fjórum uppsjávarveiðiskipum eða þeim Kap VE, Jónu Eðvalds SF, Ásgrími Halldórssyni SF og grænlenska skipinu Iivid. Leitin var fjármögnuð af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi en gerð í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Mælingarnar fóru fram við ágætis skilyrði en hafís í Grænlandssundi takmarkaði yfirferð norðvestan við land. Vestan til var aðallega ungloðnu að sjá en á austari hluta yfirferðasvæðisins var nær eingöngu fullorðin loðna.

Eins og Fiskifréttir hafa greint frá þá verður næst haldið í hefðbundna loðnuleit á Árna Friðrikssyni í fyrri hluta janúar. Síðan verður farið í fleiri loðnumælingar í framhaldi af því, eins og áður hefur verið gert. 

Í stuttri færslu á samfélagsmiðlum segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra:

„Vissulega lítið magn en þetta eru samt jákvæði tíðindi eftir loðnubrest síðastliðin tvö ár. Gefur um leið ákveðnar vonir um framhaldið, m.a. í ljósi þess að í leiðangrinum sem liggur til grundvallar þessari ráðgjöf tókst ekki að fara yfir allt svæðið vegna hafís. Ég mun á morgun funda aftur með fulltrúum Hafrannsóknastofnunar og SFS um fyrirkomulag loðnuleitar á næstu vikum og mánuðum. Það er gríðarlega mikilvægt að leitin verði eins umfangsmikil og þörf er á enda miklir hagsmunir í húfi.“