sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rækjukvóti við Vestur-Grænland skertur

21. desember 2011 kl. 13:37

Rækjuveiðar (Ljósm. Sæmundur Jónsson)

Leyft verður að veiða 105 þúsund tonn á næsta ári.

Grænlenska landsstjórnin hefur ákveðið að skera rækjukvótann við Vestur-Grænland niður um 19 þúsund tonn á næsta ári og verður hann 105 þús. tonn. Fiskifræðingar ráðlögðu að kvótinn yrði skertur um rúmlega fjórðung eða úr 124 þús. tonnum í 90 þús. tonn og féllust stjórnvöld á það en ákváðu að jafna skerðingunni niður á tvö næstu ár.

Í frétt á vef grænlensku landsstjórnarinnar kemur fram að samkvæmt stjórnunarreglum fiskveiða sé heimilt að jafna skerðingu aflaheimilda niður á allt að þrjú ár. Stjórnvöld hafi hins vegar ákveðið að dreifa skerðingunni á tvö ár með hliðsjón af áhrifum hennar á atvinnugreinina og efnahagslífið auk þess sem MSC-vottun grænlenskra rækjuveiða hafi haft veruleg áhrif á ákvörðunina.

Af áðurnefndum 105.000 tonna kvóta á næsta ári fara 4.000 tonn til Evrópusambandsins samkvæmt samningum og 3.325 tonn til Kanada.

Rækjukvóti við Austur-Grænland verður óbreyttur 12.400 tonn, þar af fær ESB 8.000 tonn.
>