miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rækjuvinnslan keyrð á erfiðum tímum

Guðsteinn Bjarnason
12. apríl 2020 kl. 09:00

Rækjan á ferð sinni um völundarhús vinnslunnar. MYND/GB

Kampi á Ísafirði er stærsta og fullkomnasta rækjuvinnsla landsins. Fyrirtækið hefur frá stofnun árið 2007 greitt samtals 3,3 milljarða í laun, framleitt meira en 31 þúsund tonn af afurðum og aldrei fengið kvörtun vegna framleiðslunnar.

Heimsfaraldur COVID-19 hefur sett mark sitt á starfsemi rækjuvinnslunnar Kampa ehf. á Ísafirði, ekki síður en önnur fyrirtæki. Dregið hefur verið verulega úr framleiðslunni meðan ósköpin ganga yfir og miklar hömlur eru á fjölda starfsfólks sem má starfa í einu á sama stað.

Fyrirtækið var stofnað árið 2007 og Albert Haraldsson rekstrarstjóri segir að þær séu ekki margar rækjuvinnslurnar hér á landi sem hafa starfað svo lengi.

„Þær eru heldur ekki margar sem hafa starfað alla virka daga, eða flesta, nánast stanslaust allt árið um kring síðan í október 2007.”

Jón Guðbjartsson er stjórnarformaður og stærsti eigandi Kampa, en þeir Albert og Brynjar sjá um daglegan rekstur. Þeir hafa báðir starfað hjá Kampa frá stofnun fyrirtækisins árið 2007 og eru meðeigendur. Meðal annarra núverandi hluthafa eru tveir aðrir starfsmenn fyrirtækisins, Salmar Jóhannsson gæðastjóri og Vilhjálmur Matthíasson klefastjóri.

Blaðamaður heimsótti Kampa fyrir nokkrum vikum, rétt áður en kórónaveirufaraldurinn skall á af fullum þunga, og átti þar gott spjall við Albert og Brynjar sem sögðu frá starfseminni og sögu fyrirtækisins.

Upphafið

Upphafið má rekja til þess að rækjuvinnslan Miðfell hf. á Ísafirði varð gjaldþrota í júlí 2007, rétt eins og fleiri verksmiðjur víða um land á þeim tíma enda hafði rækjan hrunið fáum árum áður. Meðal eigenda Miðfells voru Byggðastofnun og Ísafjarðarbær.

„Það var þannig að þegar ég sá að bæði Byggðastofnun og Ísafjarðarbær myndu óska eftir gjaldþroti hjá Miðfelli þá hringdi ég í Jón Guðbjartsson sem var í viðskiptum við Miðfell með skip sín Gunnbjörn ÍS og Valbjörn ÍS og lét hann vita að þetta væri að gerast og að hann þyrfti að finna einhverja aðra rækjuverksmiðju til að landa hjá næst svo hann myndi ekki lokast inni með hráefnið. Jón gerði það en var mjög óánægður með þau verð sem honum stóðu til boða.”

Jón fór þá að svipast um eftir viðskiptafélögum með það í huga að kaupa þrotabúið, og hringdi svo í Albert og spurði hvort það væri eitthvað vit í því að kaupa.

„Ég varaði hann við og sagði að viðhald Miðfells hafi ekki verið upp á marga fiska síðust árin. Þakið á þessari byggingu væri að hruni komið og ketillinn hérna hafði verið dæmdur á undanþágu.”

Jón sagðist gera sér grein fyrir því en gerði engu að síður tilboð „upp á 118 milljónir ef ég man rétt. Byggðastofnun hafnar víð og vill fá 138.”

Svo fór að Jón, Albert og Brynjar ákváðu að taka þessu tilboði í sameiningu ásamt tveimur öðrum.

„Jón leggur þá til 30 milljónir og síðan lögðum við fjórir einstaklingar einnig fram hlutafé.”

Þeir Albert og Brynjar segja þessi viðskipti hafa vakið nokkra úlfúð á sínum tíma.

„Stóri misskilningurinn varð að Byggðastofnun hefði lagt einhvern pening í þetta félag, sem þeir gerðu aldrei” segir Brynjar.

Gengishrunið kom sér vel

Þetta var sem fyrr segir í október 2007 en tæpu ári síðar kemur bankahrunið með gengishruni „og þá byrjum við að græða peninga,” segir Albert. Þeir voru settir í viðgerðir og fjárfestingar, vinnslunni innanhúss breytt fyrir 80 milljónir árið 2009 sem fáir vissu af en síðan var skipt um þak haustið 2010 og þær framkvæmdir vöktu athygli og fólk hafði samband og vildi kaupa hlutabréf í fyrirtækinu.

„Við vildum samt ekki hleypa neinum inn í þetta því við vissum svo sem ekkert hvað þetta myndi verða langlíft. Maður trúði því ekki að við myndum verða svona gamlir.”

Næst gerist það árið 2010 að rækjuvinnslan Bakkavík í Bolungarvík fer á hausinn.

„Við verðum svo rosalega kaldir að við tökum yfir alla samningana þeirra. Við vorum að framleiða eitthvað um 1800 tonn af afurðum sjálfir þá þegar Bakkavík fer á hausinn, og förum á einu ári yfir í 3200. Það er nánast tvöföldun. Þetta verður svo til þess að það verða til peningar og þá er ákveðið að fara í meiri breytingar og síðan að kaupa frystiskip árið 2011. Við gerðum þetta skip upp en það varð dýrara en efni stóðu til. Við misstum hann því miður eftir fimm ár eða svo,” segir Albert.

„Þetta var samt tilraun sem var vert að gera því á þessum árum var minnkandi veiði í rækju á almennum mörkuðum og við urðum að bregðast við.”

Árið 2012 kaupir Kampi þrotabú Bakkavíkur í Bolungarvík af Byggðastofnun en þá hafði engin starfsemi verið í húsinu í þau rúmu tvö ár frá því að fyrirtækið varð gjaldþrota. “Við tókum úr þeirri rækjuvinnslu allan þann búnað sem var í betra standi en hjá okkur og færðum yfir í vinnsluna okkar. Við fórum strax í að vinna að því að koma starfsemi í húsið í Bolungarvík á ný, annað en rækjuvinnslu, og í dag er m.a annars mjólkurvinnslan Arna með starfsemi sína í húsinu.”

Tæknivæðingin heldur þó áfram jafnt og þétt. Fjórða iðnbyltingin er þarna orðin að veruleika eins og víðar í íslenskum sjávarútvegi. Þess sér líka stað í auknum afköstum.

„Við höfum til dæmis verið að breyta innmötunarkerfinu okkar og stýribúnaði fyrir alla vinnsluna. Þetta verður allt að vera skothelt því við erum náttúrlega með tilbúna vöru til átu. Bara innmötunarbúnaðurinn jók afköstin um 7-10 prósent án þess að við yrðum fyrir auknum launakostnaði, sem er hellings sparnaður, plús það að við teljum að nýtingaraukningin vegna þess að það er jafnara innflæði með iðntölvum, sé tæplega prósent en það eru 70 milljónir í auka tekjur á ári.”

Völundarhús vinnslunnar

Vinnslusalirnir í húsi Kampa við Sindragötu eru mikið völundarhús, enda húsið komið til ára sinna og herbergjaskipan engan vegin hugsuð fyrir fullkomna vinnslu með nýjustu tækni. Þeir Albert og Brynjar segja það hafa kostað töluverð heilabrot að koma búnaðinum fyrir, en allt hafðist það og rækjan fer að mestu án þess að mannshöndin snerti hana í gegnum allt vinnsluferlið. Þar er hún soðin, pilluð, flokkuð, fryst og pökkuð en grannt er fylgst með hverjum áfanga og sýni tekin ótt og títt til að tryggja að varan sé hæf til manneldis samkvæmt ströngustu kröfum nútímans.

Þeir Albert og Brynjar eru greinilega stoltir af fyrirtækinu sem þeir hafa byggt upp, en segjast helst ekki vilja láta fara mikið fyrir sér.

„Við reynum að vera snyrtilegt fyrirtæki út á við, en höfum ekkert hátt innanbæjar,” segir Albert. „Við erum með um 40 manns á launaskrá, stundum höfum við verið með fleiri, og á þessum árum erum við búnir að borga 3,3 milljarða í laun. Það er dálítið mikil innspýting í þetta svæði.”

Í vinnslunni sjálfri eru 24 starfsmenn, „allt frá útisvæði og þangað til rækjan kemur út aftur, en inni þar sem er pillað, rannsóknin og hreinsunin, svo kallað há áhættusvæði þar eru tíu manns.”

„Við höfum lagt upp úr því að vera með mikinn mannskap til að tryggja að við séum með vöru sem við fáum ekki aftur í hausinn. Ég fullyrði að engin rækjuverksmiðja hafi skilað jafn meðalgóðri rækju eins og Kampi, bara aldrei,” segir Albert.

„Hér erum við búnir að framleiða 31 þúsund tonn af afurðum og aldrei fengið neina höfnun. Það er ekki verið að kvarta undan skelrestum, glasseringu, eða vigtun eða neinu. Við teljum okkur vera búna að kaupa íslenska veidda rækju fyrir svona sjö milljarða frá því við byrjuðum.”

Þeir segja það hafa bjargað miklu að vera með gott fólk sem flest hefur verið með frá byrjun.

„Þó tæknin hafi gert okkur kleift að fækka í þessum hefðbundnu störfum þá fjölgar í öðrum sem þarf sérþekkingu í. Það þarf ekkert endilega að vera langskólagenginn en þú þarft að hafa verkvit til að gera þetta, vera meðtækilegur fyrir öllum nýjungum í greininni og þú þarft að vita allt um rækjuna.”

Á ýmsu hefur þó gengið í rekstrinum þau ár sem fyrirtækið hefur starfað. Eins og allar rækjuverksmiðjur hafa þeir þurft að glíma við hrun í stofninum, síðan kom Brexit ofan í þau vandræði öll og nú síðast er það heimsfaraldurinn sem enn ríkir alger óvissa um hvernig úr spilast.

„Hólmadrangur þurfti að fara í nauðsamninga og FISK á Gundarfirði lokaði, en það var vegna þess að reksturinn 2016-17 var ofviða öllum. Okkur tókst samt að klóra okkur fram úr þessu og erum að borga skuldahalann. Við fengum auðvitað skuldahala eins og allir aðrir, það var ofviða hinum en við töldum þetta vera möguleika.

Rækjusamlokur í Bretlandi

Um það bil 95 prósent af framleiðslunni hjá Kampa fer til Bretlands, og þar segja þeir að megnið endi í rækjusamlokum enda eru rækjusamlokur meðal allra vinsælustu skyndibita Breta.

Breska pundið ræður því miklu um afkomu fyrirtækisins og Kampi hefur haft þann háttinn á að miða við gengi pundsins í öllum viðskiptasamningum.

„Þegar gengið þeirra hrundi útaf Brexit þá var það erfitt fyrir okkur. Það lækkaði um 17 prósent á einni nóttu sem var gríðarlegt högg fyrir ansi marga. En við höfum reynt að byggja það upp þannig að öll okkar viðskipti fara fram í pundum,” segir Albert og á þá við að allt sé umreiknað þótt greiðslan fari fram í krónum eða öðrum gjaldmiðli. „Þetta byggist á því að vera í góðu sambandi og treysta þeim aðilum sem við erum í viðskiptum við erlendis hvað þeir sjá fyrir sér að verðið þróist, þannig að við höfum tíma til að reyna að ná fram hráefnislækkun áður á innlendu og erlendu hráefni svo höggið lendi ekki allt á okkur.”

„Við kaupum ekki hráefni nema vera nokkurn veginn öruggir með sölu á því, því við leitum alltaf eftir hráefni sem hentar okkar sölusamningum,” skýtur Brynjar inn í. „Þetta byggir gífurlega mikið á trausti á milli okkar sem framleiðanda og kaupenda okkar.”

Skelin nýtt

Hjá Kampa er rækjuskelinni ekki hent, enda má það ekki lengur þótt það tíðkist sjálfsagt enn að einhverju marki annarsstaðar.

„Við fórum í það 2012 að kaupa litla verksmiðju frá Ástralíu og settum hana upp í Bolungarvík. Við þurrkum skelina þar og búum til mjöl,” segir Brynjar.

Skelin er flokkuð eftir grófleika og stærstu skeljarnar, hausinn og slíkt fer í grófa mjölið og það er selt í fæðurbótarefni.

„Þetta er rúmmálsfrekt en svakalega létt, eins og haframjöl,” segir Albert.

Fína mjölið fer síðan í fóður, og þá einkum til fiskeldis þar sem rækjan hjálpar til við að viðhalda rauða litnum í laxinum.

„Við höfum verið að selja það innanlands í fóðurblöndur og einnig erlendis, meira að segja alla leið suður til Nýju Kaledóníu . Svo var bóndi af Suðurlandi sem keypti af okkur, hann er með stórt bú þar og sagði að nytin í kúnum hafi aukist. Aftur á móti kostar jafn mikið eða meira að flytja þetta frá Bolungarvík til hans heldur en ég þarf að fá fyrir efnið. Sem er skandall en við þurfum að finna lausn á því.”