þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rafnar endurnýjar björgunarskip Landsbjargar

5. október 2018 kl. 14:48

Fyrsta hugmyndin að Nökkva 1500, leitar- og björgunarskipi sem byggir á hönnun Rafnar ehf.

Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) og Rafnar ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf í tengslum við hönnun og síðar endurnýjun á öllum björgunarbáta- og skipaflota landsins.

Í sameiginlegri tilkynningu frá Landsbjörgu og Rafnar segir að smíðaðir verði 13 nýir bátar og skip og er gert ráð fyrir að verkefnið kosti um 2 milljarða íslenskra króna.

Í viljayfirlýsingunni segir að hönnunin muni taka mið af íslenskum aðstæðum og henti þeim margvíslegu verkefnum sem sjódeildir SL sinni á hverjum tíma.

„Endurnýjun björgunarbáta- og skipaflota landsins er bráðnauðsynlegt hagsmunamál fyrir þjóðina og mikilvægt skref í öryggismálum landsins en við höfum síðustu ár verið að vinna rýni- og greiningarvinnu og nú er komið að næsta skrefi. Við bindum miklar vonir við hina sérhönnuðu skrokkhönnun Rafnar, en gott samstarf hefur verið milli þessara aðila,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri SL.

Tækniþróunarsjóður hefur samþykkt að styrkja Rafnar með 70 milljóna króna framlagi á næstu tveimur árum vegna þessa verkefnis en hannaðir verða annars vegar 12 - 15 metra langir léttbyggðir bátar og hins vegar 15 metra björgunarskip til lengra úthalds.

„Innkoma Tækniþróunarsjóðs gerir gæfumuninn til að gera þetta verkefni að veruleika en farsælt samstarf Rafnar og SL er ekki síður grundvallaratriði. Við afhentum þeim fyrsta sérhannaða björgunarbátinn árið 2015 og síðan hefur verið góð samvinna. Eitt mesta vandamál sem björgunarsveitarmenn glíma við eru þau miklu högg sem verða þegar bátar fara á miklum hraða yfir hafflötinn en skrokkhönnun báta frá Rafnar draga úr 80 - 90% af þeim samkvæmt rannsókn hjá verkfræðideild Háskóla Íslands og það getur gert gæfumuninn,“ segir Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Rafnar.

Slysavarnafélagið Landsbjörg og Rafnar munu eftir því sem við á leita eftir samstarfi við og afla tilboða frá skipasmíðastöðvum sem mesta reynslu hafa á þessu sviði.