mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rafrænt fiskeftirlit reynist vel

Guðsteinn Bjarnason
3. júlí 2019 kl. 07:00

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Fiskeridirektoratet í Noregi, stofnun sem gegnir þar sams konar hlutverki og Fiskistofa hér á landi, tók í mars í notkun nýjan stafrænan búnað sem auðveldar allt veiðieftirlit.

Auðveldara hefur reynst að koma upp um brot og sjá hvaða úrbætur þarf að gera á regluumhverfinu og lýsir stofnunin almennri ánægju með þennan nýja búnað.

Saga nefnist þessi búnaður, sem fiskeftirlitsmenn hafa í spjaldtölvum og geta flett þar upp í gagnabönkum.

„Við erum með ýmis dæmi um lögbrot sem uppgötvuðust með Sögu, sem ekki hefðu uppgötvast með gamla kerfinu okkar,“ segir Gjermund Bjerkeland, ráðgjafi hjá Fiskeridirektoratet, en hann tók þátt í þróun búnaðarins.

„Við höfum einnig séð að Saga stuðlar að því að eitt gangi frekar yfir alla í eftirlitinu og í málsmeðferð á milli svæða hjá stofnuninni. Þetta verkfæri varpar einnig ljósi á hvaða úrbætur þarf að gera í fiskveiðilöggjöfinni og misræmi við útfyllingu á eyðublöðum eftir sölusamtökum. Þar að auki fáum við betri og kerfisbundnari gögn til greiningar og áhættumats,“ segir Birkeland í frásögn á vef stofnunarinnar.

Mistök sjaldgæfari
Eftirlitsmenn stofnunarinnar eru í það minnsta hæstánægðir með búnaðinn.

„Saga virkar mjög vel fyrir okkur,“ segir einn þeirra, sem heitir Trond Blom og starfar við fiskeftirlit í Norður-Noregi. „Við losnum við að leita á jafn mörgum stöðum, við skrifum beint inn í kerfið sem gefur út skýrsluna, eyðublöð sjómannanna koma upp rafrænt, við sjáum aflatölur og getum merkt við lögbrot,“ segir hann og bætir því við að vegna sjálfvirkni við alla útreikninga verði mannleg mistök sjaldgæfari í eftirlitinu.

Búnaðurinn bætir einnig öll samskipti við sjómennina, sem hafa beinan aðgang að eigin vefsvæði inni á kerfinu. Þar geta þeir sett inn gögn og fyllt út eyðublöð, ásamt því að gera athugasemdir við eftirlitið.

Vinna að þróun búnaðarins hófst árið 2015 og hann var síðan tekinn í notkun við fiskeftirlit í Noregi í mars síðastliðnum.