sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rafvæðingu gámakrana lokið

30. júní 2021 kl. 12:50

Mynd/Eimskip

Allir kranar Eimskips á hafnarsvæðinu í Reykjavík nýta nú rafmagn í stað jarðefnaeldsneytis.

Lokið hefur við að rafvæða gámakranana Storm og Gretti. Þar með nýta allir kranar Eimskips á hafnarsvæðinu í Reykjavík rafmagn í stað jarðefnaeldsneytis. Alls eru 4 gámakranar á svæðinu Jakinn, Grettir, Stormur og Straumur sem er nýjasti krani Eimskips, að því er segir í frétt fyrirtækisins.

„Það er ekki hlaupið að því að rafvæða hafnarkrana. Starfsmenn rafmagns- og vélarverkstæðis Eimskips komu beint að verkinu auk erlendra samstarfsaðila en breyta þurfti tæknibúnaði krananna til að taka rafstraum frá landi í stað díeselvéla,“ segir þar.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir þetta jákvætt skref.

„Við leggjum mikla áherslu á að þekkja þær áhættur sem snúa að sjálfbærni í rekstrinum okkar og vinnum markvisst að því að draga úr þeim. Ekki aðeins færumst við nær markmiði okkar að draga úr kolefnisfótspori Eimskips um 40% fyrir árið 2030 heldur hefur þessi breyting jákvæð áhrif á aðra þætti í starfsemi okkar eins og staðbundinni loftmengun frá starfseminni og hljóðvist.“