sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðherrar áhyggjufullir vegna dýfu gráðlúðustofns

14. ágúst 2008 kl. 14:12

Einar K. Guðfinnsson, sjávar- og landbúnaðarráðherra, ræddi í gær við starfsbróður sinn á Grænlandi, Finn Karlsen, sem er hér í opinberri heimsókn, um ýmis sameiginleg hagsmunamál landanna, þar á meðal stýringu á grálúðuveiðum en minnkandi gráðlúðustofn hefur verið áhyggjuefni sjávarútvegsyfirvalda í báðum löndum.

Á fundi sínum í ráðuneytinu samþykktu ráðherrarnir að koma á fót sérstakri nefnd embættismanna beggja þjóða til að fjalla um málið og komast að samkomulagi þeirra á milli.

Einnig munu fulltrúar ráðuneytanna einnig um veiðar á karfa. Ráðherrarnir ræddu nauðsyn þess að auka rannsóknir á þorskstofnum landanna og voru sammála um að auka samvinnu þar að lútandi.

Heimsækir fyrirtæki og stofnanir

Finn Karlsen er sjávarútvegs-, veiðimála- og landbúnaðarráðherra Grænlands og hófst heimsókn hans á þriðjudag. Fór hann um Ísafjörð og Bolungarvík ásamt Einari K. Guðfinnssyni, skoðaði fyrirtæki í sjávarútvegi og fundaði með bæjarstjórunum.

Í gær skoðaði hann síðan fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu sem tengjast sjávarútvegi, en í dag heimsækir hann m.a. Bændasamtök Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Opinberri heimsókn ráðherrans lýkur í kvöld.