mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rak stjórnlaust í Kyrrahafi í tæpa fjóra mánuði

19. september 2012 kl. 11:34

Kiribati

„Mig langar í smók“, var það fyrsta sem hinn sjóhrakti sagði

 

Sjómaður frá Suðurhafeyjunum Kiribati í Kyrrahafi fannst á lífi nýlega eftir að bátur hans hafði rekið nánast stjórnlaust fyrir veðri, vindum og straumum í á fjórða mánuð. Frá þessu er greint á vef fis.com.

Þeir voru tveir um borð í bátnum, sem var aðeins 15 metra langur, úti á rúmsjó þegar vélin stöðvaðist og ekki tókst að setja hana í gang aftur. Annar sjómannanna lét lífið eftir nokkrar vikur en hinn sem bjargaðist kvaðst hafa lifað á fiski og rigningarvatni.

Manninum var bjargað um borð í fiskiskip sem hafði orðið vart við bátinn. Þegar maðurinn var kominn um borð í fiskiskipið var hann spurður hvort hann vantaði ekki eitthvað og það fyrsta sem hann sagði var: „Mig langar í smók.“

Metið í sjóhrakningum af þessu tagi er 177 dagar en það var árið 1992. Þar var einnig um að ræða tvo fiskimenn frá Kiribati.