sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rannsóknarleiðangur í Íslandshaf

2. maí 2008 kl. 20:45

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson hélt þann 30. apríl í rannsóknaleiðangur í Íslandshaf sem standa á í 6 daga. Tilgangur leiðangursins er að kanna umhverfisþætti (hiti, selta, næringarefni) og magn svifþörunga og átu að vorlagi á 22 stöðum í sunnanverðu Íslandshafi ( 68°N - 69°N og 19°V – 11°V) en rannsóknasvæðið liggur talsvert utan við norðlenska landgrunnið.

Á þessum slóðum er dýpi frá 1000 – 2000 m og verða umhverfisþættir kannaðir frá yfirborði til botns. Í rannsóknunum verður meðal annars beitt sérstökum djúpdýrasvifsháfi til að kanna dýrasvif á 6 stöðum frá yfirborði til botns.

Rannsóknirnar eru liður í verkefninu Vistfræði Íslandshafs sem staðið hefur yfir á Hafrannsóknastofnuninni frá árinu 2006. Er þetta því þriðja árið í röð þar sem safnað er slíkum gögnum af svæðinu en þó á mismunandi árstímum. Í ár verða gerðar rannsóknir í byrjun maí til að ná mælingum af þeim umhverfisþáttum sem að ofan eru nefndir og vorkomu gróðurs og átu í hafinu. Í ágúst-september verður farið aftur á mun stærra svæði til að kanna sömu þætti í lok sumars og byrjun hausts. Í þeim leiðangri verður einnig markvist reynt að kanna útbreiðslu loðnu. Í verkefninu er því leitast við að ná utan um árstíðatengdar breytingar á ofangreindum þáttum og hvernig samspil þeirra er innan ársins, ásamt því að tengja þær breytingar við útbreiðslu loðnu á svæðinu að vor og sumarlagi.

 Leiðangursstjóri er Hafsteinn G. Guðfinnsson og skipstjóri Ingvi Friðriksson.

Frá þessu er skýrt á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.