föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rannsóknaskipin kemba loðnumiðin eystra

11. febrúar 2016 kl. 15:29

Skip Hafró, Árni Friðriksson.

Vinna saman úti fyrir Austfjörðum ásamt Polar Amaroq

Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson voru í loðnumælingu á miðunum á móts við Norðfjarðarhorn nú um kaffileytið í dag. Þau hafa verið saman að vinna sig frá suðri til norðurs úti af Austfjörðum og njóta aðstoðar grænlenska veiðiskipsins Polar Amaroq. 

„Yfirferð okkar yfir þetta svæði var fullgróf um daginn því við héldum að það væri meira af loðnu fyrir norðan og þess vegna var ákveðið að endurtaka mælinguna á þessum slóðum og fara þéttar yfir,“ sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir.

Árni Friðriksson verður við mælingar eystra að minnsta kosti fram yfir helgi, en Bjarni Sæmundsson heldur áleiðis til Reykjavíkur í kvöld eða fyrramálið því hans bíður annað verkefni. 

Þorsteinn sagði að ekki væri að vænta neinna yfirlýsinga um mælinguna fyrr en um miðja næstu viku nema eitthvað óvænt kæmi upp á.   

Hægt er að fylgjast með ferli rannsóknaskipanna í rauntíma á vef Hafró, HÉR.