laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rannsóknir á nýtingu grásleppunnar í undirbúningi

Guðsteinn Bjarnason
22. maí 2020 kl. 07:00

Grásleppuráðgjöf Hafró hefur verið gagnrýnd. MYND/HAG

Matís, mögulega í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, undirbúa rannsóknir á nýtingu grásleppu að frumkvæði Axels Helgasonar

Axel Helgason, fyrrverandi formaður Landssambands smábátasjómanna og grásleppusjómaður til margra ára, hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu umsókn um heimild til veiða á 10-14 tonnum af grásleppu sem notað yrði til þess að rannsaka nýtingu á grásleppu.

Ráðuneytið hefur tekið vel í þessa málaleitan en sitthvað er óljóst um útfærsluatriði. Axel segir hugmyndina hafa komið frá Matís, og meiningin er að starfsmaður Matís og hugsanlega starfsmaður Hafrannsóknastofnunar sjái um rannsóknarþátt verkefnisins.

Þrír til fjórir veiða

Ætlunin er að þrír til fjórir bátar veiði nokkur tonn hver eftir lok vertíðar í innanverðum Breiðafirði. Ágústsson ehf. í Stykkishólmi mun taka við aflanum til vinnslu, en fyrirtækið verkar hrognin annars vegar með nýjustu og bestu tækni og hins vegar með gömlum búnaði sem notaður var fyrir meira en áratug. Með því móti má bera saman það hrognahlutfall sem fæst með báðum aðferðum.

Axel hefur harðlega gagnrýnt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og þá vinnu sem að baki henni býr. Hann segir útreikninga stofnunarinnar á nýtingarhlutfalli óslægðrar grásleppu og fullverkaðra hrogna aftur í tímann byggða á forsendum sem engan veginn geti staðist.

Sjávarútvegsráðherra hefur haldið fast við að fylgja ráðgjöf stofnunarinnar fyrir grásleppu, enda þótt hann hafi þá þurft að stöðva grásleppuveiðar áður en allir grásleppusjómenn höfðu haft tækifæri til að hefja veiðar.