föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rauðagullinu ausið upp úr Djúpinu

16. desember 2011 kl. 14:34

Rækju úr Ísafjarðardjúpi landað. (Ljósm. Friðgerður Guðný Ómarsdóttir).

776 tonn af rækju hafa veiðst í Ísafjarðardjúpi í haust.

Rúmlega 776 tonn hafa veiðst af 1000 tonn rækjukvóta í Ísafjarðardjúpi frá því veiðar voru leyfðar á ný í haust eftir níu ára hlé. Valur ÍS frá Súðavíkur er aflahæsti rækjubáturinn en hann hefur komið með 159,2 tonn að landi, að því er fram kemur á vefnum bb.is í dag.

Halldór Sigurðsson ÍS frá Ísafirði er næst aflahæstur með 139,8 tonn og Gunnvör ÍS frá Ísafirði fylgir honum fast á eftir með 138,1 tonn og Byr ÍS frá Ísafirði er kominn með 111,6 tonn. Allir þessir bátar landa í Súðavík. Aldan ÍS frá Ísafirði er komin með 104,8 tonn. Halldór Sigurðsson ÍS, Byr ÍS og Aldan ÍS eru hætt veiðum.

Gunnbjörn ÍS frá Bolungarvík er aflahæsta vestfirska úthafsrækjuveiðiskipið á árinu með 855,5 tonn. Eygló ST frá Hólmavík er í öðru sæti með 439,9 tonn, Valbjörn ÍS frá Bolungarvík er þriðji með 342,1 tonn og Ísborg ÍS frá Ísafirði er fjórða hæst með 249,2 tonn, segir á bb.is