laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Refsiaðgerðir yrðu örþrifaráð

Guðsteinn Bjarnason
12. september 2019 kl. 11:26

Íslendingar sagðir hafa léð máls á því að hlutur þeirra verði 11,9 prósent í stað þeirra 16,5 prósenta sem hefur verið samningsmarkmiðið. Fiskveiðinefnd ESB-þingsins fundaði um makríldeilur

Nokkrir þingmanna Evrópuþingsins tóku til máls á fundi fiskveiðinefndar þingsins í síðustu viku og furðuðu sig á því misræmi sem greina mátti á frásögnum fulltrúa ESB annars vegar og Íslands og Grænlands hins vegar af því sem gerst hefur í makríldeilunni á síðustu mánuðum.

Aðalráðgjafi framkvæmdastjórnar ESB í makríldeilunni, Fabrizio Donatello, sat fyrir svörum á fundinum og sagði það hafa komið sér verulega á óvart að Íslendingar og Grænlendingar skyldu auka veiðiheimildir sínar verulega umfram það sem Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar höfðu komið sér saman um.

Brian Monteith, fulltrúi breska Brexit-flokksins á Evrópuþinginu, var einn þeirra sem gagnrýndu Donatello. Hann sagði engu líkara en fulltrúar Evrópusambandsins hafi verið sofandi í viðræðunum síðastliðið vor.

„Af hverju gátu þeir ekki seð þetta fyrir?“ spurði hann.

Fundinum stjórnaði Chris Davies, formaður Fiskveiðinefndar ESB-þingsins (PECH). Davies komst í fréttir hér á landi fyrir nokkrum vikum þegar hann sagði réttast að beita Íslendinga og Grænlendinga refsiaðgerðum fyrir „einhliða upptöku á makríl“, eins og hann orðaði það.

Davies sagðist hafa talið nauðsynlegt að ræða möguleikann á refsiaðgerðum í tengslum við einhliða ákvörðun Íslendinga og Grænlendinga á makrílkvóta.

Á fundinum hvatti hann þó samningafulltrúa Evrópusambandsins til að leita sátta. Kannski þurfi að taka Íslendinga á orðinu og sýna þeim traust.

Þriggja stofna samningur
Sömuleiðis væri kannski rétt að skoða hvort gera ætti heildarsamning um veiðar úr uppsjávarstofnunum þremur, makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld. Íslendingar hafa undanfarin ár lagt áherslu á að samið verði í einu um alla stofnana þrjá frekar en að eiga í deilum um hvern og einn þeirra.

Hvað mögulegar refsiaðgerðir varðar sagði Donatella aðspurður að vissulega komi það til greina, en aðeins sem síðasta úrræði ef ekki tekst að ná samkomulagi eða koma Íslendingum og Grænlendingum í skilning um mikilvægi þess að fylgja því samkomulagi sem Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hafa haft í heiðri sín á milli síðan 2014.

Það ár gerðu Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar með sér samkomulag um makrílveiðar í Norðaustur-Atlantshafi án aðkomu Íslendinga og Grænlendinga. Bæði Íslendingar og Grænlendingar hafa allar götur síðan reynt án árangurs að fá aðkomu að samningaborðinu.

Kristján Freyr Helgason, aðalfulltrúi Íslands í þessum málefnum, mætti ekki á fund nefndarinnar í síðustu viku en kaus þess í stað að hitta formann hennar, Chris Davies, daginn áður en fundurinn var haldinn. Hann sendi jafnframt öllum fulltrúum nefndarinnar greinargerð um afstöðu Íslands.

Á fundi nefndarinnar fullyrti Davies að Íslendingar hefðu ljáð máls á því að fá 11,9 prósent heildarkvótans í sinn hlut. Hingað til hafa Íslendingar haft það samningsmarkmið að fá 16,5 prósent, eða þar um bil, meðvitaðir þó um að ekki sé víst að það náist að fullu. 

Breytt staða
Næsta viðræðulota strandríkjanna verður í næsta mánuði. Mögulega gæti það liðkað fyrir samningum að í makrílleiðangri sumarsins mældist lífmassavísitala makríls í Norðaustur-Atlantshafi 76 prósentum meiri en á síðasta ári.

Ný ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, verður gefin út í byrjun október og er þar byggt meðal annars á upplýsingum úr uppsjávarleiðangri sumarsins.

Þegar lífmassinn hefur aukist svona mikið kann að vera að Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar þurfi ekki að gefa jafn mikið eftir í afla þótt hlutfallstalan lækki til að rýma til fyrir Íslendingum og Grænlendingum.