mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Refsing fyrir fiskveiðibrot álíka og fyrir nauðgun

18. febrúar 2013 kl. 13:01

Fiskibátur við bryggju í Noregi.

Norsk stjórnvöld hyggjast stórauka hámarksrefsingu fyrir brot á fiskveiðilögum.

Norski sjávarútvegsráðherrann, Lisbeth Berg-Hansen, hefur útbúið lagafrumvarp sem gerir ráð fyrir að hámarksrefsing fyrir brot á fiskveiðilögum verði sex ára fangelsi sem er tvöfalt þyngri refsing en nú tíðkast. 

Hagsmunaaðilar í norsku sjávarútvegi mótmæla þessum áformum og benda á að hámarksrefsingin fyrir fiskveiðilagabrot verði þá álíka þung og fyrir nauðgun eða fyrir að verða valdur að dauða með akstri sínum, að því er segir í Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi. Jafnframt er minnt á að refsingar fyrir brot á lögum sem varða nýtingu annarra auðlinda svo sem vinnslu olíu, skógarhögg og námagröft, séu miklu vægari en þarna sé stefnt að hvað sjávarauðlindina varðar. Þar með sé jafnræðis ekki gætt. 

Verði þessi áform að lögum mun refsiramminn vegna fiskveiðilagabrota verða svipaður refsirammanum fyrir innherjaviðskipti og önnur gróf efnahagsbrot, peningaþvætti og umhverfisglæpi, segir blaðið. 

Sjávarútvegsráðuneytið norska segir á hinn bóginn að með því að þyngja refsirammann verði auðveldara að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hægt verði að nýta þá möguleika sem alþjóðlegt samstarf á því sviði bjóði upp á. 

Fiskeribladet/Fiskaren er ekki kunnugt um nein tilfelli hingað til þar sem fiskimenn hafi verið dæmdir í fangelsi fyrir fiskveiðilagabrot. Venjan í slíkum málum sé að leggja á sektir og gera aflaverðmæti upptækt.