föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Refsipunktar fyrir fiskveiðibrot

22. október 2009 kl. 12:10

Sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins hafa ákveðið að innleiða kerfi refsipunkta fyrir fiskveiðilagabrot líkt og tíðkast fyrir umferðarlagabrot. Verði skip uppvíst að ítrekuðum brotum getum það leitt til veiðibanns. Það sama gildir ef skipstjórinn er fundinn sekur um alvarlegt fiskveiðilagabrot. 

Þessar nýju reglur geta haft það í för með sér að skip þurfi að vera bundið við bryggju í hálft til eitt ár og ef um alvarleg brot er að ræða kann útgerðin að missa veiðileyfi sitt til frambúðar.

Þetta nýja punktakerfi mun koma til framkvæmda á næsta ári og er því ætlað að stemma stigu við ofveiði á þorski, ýsu og lýsingi á ákveðnum svæðum í lögsögu ESB.

Ráðherrarnir ákváðu einnig að koma á sjálfvirku eftirlitskerfi með skipunum til þess að fylgjast með þeim á veiðum og þegar þau landa aflanum.

Haft er eftir Joe Borg fiskveiðistjóra ESB að vandinn hingað til hafi verið sá að ákveðnir skipstjórar með einbeittan brotavilja hafi getað komist upp með að svindla á kerfinu næstum því án þess að eftir því væri tekið. Sektir og aðrar refsingar hafi verið svo vægar að útgerðirnar hafi gert ráð fyrir þeim í útgerðarkostnaðinum og samt náð arðsemi út úr veiðunum þótt skipin yrðu staðin að brotum. Nýju reglurnar feli í sér mun meiri fælingarmátt þannig að hér eftir verði ekki eins auðvelt að komast hjá refsingum og áður fyrir ólöglegar veiðar.

Sjávarútvegsvefurinn FishUpdate.com skýrir frá þessu.