sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reglugerð í vegi fullnýtingar

Guðsteinn Bjarnason
9. maí 2019 kl. 09:30

Sólberg að veiðum. Mynd/Þorgeir Baldursson

Síðastliðið haust staðfesti Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tvo úrskurði Matvælastofnunar, þar sem fyrirtækjunum Haustaki í Grindavík og Ramma á Siglufirði hafði verið neitað um leyfi til að framleiða lýsi til manneldis úr slógi.

Tvö íslensk fyrirtæki, Rammi hf. á Siglufirði og Haustak í Grindavík, hafa fjárfest í dýrum búnaði til að vinna lýsi úr slógi. Þetta var gert í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið í íslenskum sjávarútvegi á seinni árum, sem er að fullnýta hvern fisk og ná þannig meiri verðmætum úr aflanum.

Matvælastofnun hefur synjað báðum þessum fyrirtækjum um leyfi til þess að nýta búnaðinn til manneldis. Vísað er í reglugerð Evrópusambandsins númer 853/2004, nánar tiltekið í 6. lið II. hluta VIII. þáttar III. viðauka þeirrar reglugerðar, sem innleidd var í íslensk lög með reglugerð númer 104/2010.

Þar segir að ekki megi nýta innyfli í vörur sem ætlaðar eru til manneldis.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest úrskurð Matvælastofnunar.

Í Noregi er þessu öðru vísi háttað. Þar sér norska matvælastofnunin, Mattilsynet, ekkert athugavert við að nýta slóg til manneldis, og hefur þó sömu Evrópureglugerðina til hliðsjónar.

Bannað að nota verksmiðjuna
„Þeir bönnuðu okkur að nota slógverksmiðjuna út af reglugerðinni,“ segir Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codlands í Grindavík. Haustak er eitt þeirra fyrirtækja sem standa að Codland, og undir merkjum Haustaks er meðal annars framleitt lýsi úr þorsklifur. Matvælastofnun hefur ekkert við það að athuga.

Hins vegar hefur Haustak einnig komið sér upp slógverksmiðju þar sem til stóð að framleiða lýsi úr slógi. Sú verksmiðja er í sama húsi og lýsisverksmiðjan, en stendur ónotuð.

„Matvælastofnun vill meina að það megi ekki nota innyfli úr fiskum til manneldis,“ segir Tómas, „en við vorum búnir að sýna fram á það með Matís að við getum alveg fengið hágæðaolíu út úr þessu hráefni. Samt stoppuðu þeir bara verksmiðjuna, sem þýðir við þurfum að fara í meiri fjárfestingar til að aðskilja þorskverksmiðjuna og þessa.“

Fyrirtækið hikar hins vegar við að leggja í þá fjárfestingu því Tómas segir Matvælastofnun ekki hafa gefið neitt vilyrði fyrir því að framleiða megi lýsi til manneldis úr slóginu, jafnvel þótt sú framleiðsla yrði aðskilin frá annarri framleiðslu sem þýðir að ekki sé hægt að hámarka virði hráefnisins og standa þannig undir fjárfestingunni.

Málið hefur reyndar verið óvenju lengi að velkjast um í kerfinu. Síðastliðið haust barst endanlegur úrskurður ráðuneytins, en meira en fjögur ár voru þá liðin frá því Haustak sótti fyrst um leyfi til að vinna lýsi úr slógi.

Mikið þvælumál
„Þetta er rosalega mikið þvælumál,“ segir Reynir Karlsson hæstaréttarlögmaður, sem vann að málinu fyrir Haustak. „Eins og þetta er túlkað núna þá kemur þetta í veg fyrir alla vöruþróun í iðnaðinum.“

Í erindi sínu til ráðuneytisins segir Reynir að Haustak telji reglugerðirnar sem vísað er til „alls ekki skýrar um það að banna framleiðslu á lýsi samkvæmt vinnsluferli Haustaks ehf. Ástæða þess að krafa er gerð um að slógi sé haldið frá öðru hráefni er sú að það getur smitað annað hráefni. Svokölluð niðurbrotsefni í innyflum geta eyðilagt annað hráefni. Þess vegna skiptir meðhöndlun á hráefni og vinnsluferli öllu máli.“

Hann segir að yfirlýsingin frá Matís, og reyndar umsögnin frá Matvælastofnun líka, hafi staðfest að með vísindalegum aðferðum hafi tekist að búa til vöru hæfa til manneldis.

„Í raun og veru er það kannski óumdeilt að þetta er hrein afurð,“ segir Reynir, „en af því að reglugerðin á einhverju stigi flokkar þetta sem úrgang þá má ekki vinna vöru til manneldis úr þessu. En það sem er úrgangur í dag er það ekki endilega á morgun.“

Ónýttir möguleikar
Sama dag og ráðuneytið staðfesti synjun Matvælastofnunar á leyfisumsókn Haustaks um framleiðslu á lýsi til manneldis úr slógi, staðfesti ráðuneytið einnig synjun sömu stofnunar á sambærilegri leyfisumsókn frá Ramma hf. á Siglufirði.

Tveggja ára gamall frystitogari Ramma hf., Sólberg ÓF, er með nýja vinnslulínu frá Héðni hf. í Hafnarfirði, þar sem hrálýsi er framleitt um borð. Ætlunin var að framleiða hrálýsið í áframhaldandi vinnslu til manneldis en Matvælastofnun féllst ekki á það þar sem að hráefnið inniheldur slóg auk beingarðs og hausa.

„Í reglugerðinni er talað um að innyfli og þeir hlutar af fiskinum sem gætu verið heilsuspillandi séu skilin frá þeim afurðum sem ætlaðar eru til manneldis. Matvælastofnun tekur ekki til greina framleiðsluferli hrálýsins, hitastig og tímamörk sem eru hluti af grundvallaratriðum í framleiðslu á öruggum matvælum,“ segir Þóra Ýr Árnadóttir, gæðastjóri hjá Ramma hf.

„Þetta er unnið beint upp úr sjó og fer þar að auki allt í gegnum mikið hitaferli, upp í suðu sem drepur allar þær heilsuspillandi örverur sem þeir eru hræddir við í þessu tilfelli. Við höfum einnig vakið athygli á að leyfilegt er að bræða heilan fisk, með slógi og öllu, og nota til manneldis hérlendis. Túlkun Matvælastofnunar er að það sé mikill munur á því og því sem við gerum um borð í Sólbergi, því er ég ekki sammála.“

Búnaðurinn um borð í Sólbergi er engu að síður nýttur til hrálýsisframleiðslu, en það lýsi má ekki nýta til manneldis og fer þess í stað í fóðurframleiðslu.

„Þetta veldur því að við getum ekki selt hrálýsið okkar til Lýsis hf., þar sem þeir framleiða eingöngu til manneldis. Þeirra hráefni verður að vera matvælavottað. Þeir fengu prufur af lýsinu okkar þegar við vorum að byrja og voru mjög hrifnir af því en mega ekki taka við því vottunar vegna. Þar af leiðandi erum við að selja hrálýsið í fóðuriðnað, og fáum þá lægra verð. Auk þess er ekki eins einfalt fyrir okkur að selja það því við þekkjum ekki þann markað eins vel. Við þurfum að leggja meiri vinnu í það og flytja það í auknum mæli erlendis, þar sem það fer í áframhaldandi framleiðslu í staðinn fyrir að Lýsi hf myndi taka við því hér og vinna áfram úr okkar íslenska hráefni.“

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma hf., tekur reyndar fram að mál Haustaks og Sólbergs sé ekki alveg sambærileg:

„Annars vegar er verið að tala um hreint slóg hjá Haustaki, sem ég veit ekki hvaða meðhöndlun hefur fengið, en við erum með bein, hausa og slóg sem eru unnin eru beint upp úr sjó. Það hráefni er unnið skv. ströngum gæðakröfum líkt og aðrar manneldisvörur.“

Heilan fisk má bræða
I svari sínu til Ramma segist ráðuneytið ekki taka undir þá túlkun að í reglugerðinni sé að finna „óskoraða heimild til að nýta alla hluta fisks til lýsisgerðar.  Telur ráðuneytið að ákvæðið eigi eingöngu við um bræðslu fisks í heilu lagi.“

Ráðuneytið segir mikinn mun vera á því hvort fiskur sé bræddur í heilu lagi eða lýsi sé eingöngu unnið úr aukaafurðum hans að meðtöldu innihaldi meltingarvegar.

Ráðuneytið segir að Matvælastofnun hafi haft upplýsingar um að Rammi hafi ætlað að „framleiða lýsi til manneldis úr fiskislógi“, en stofnuninni hafi ekki borið „að rannsaka sérstaklega hvort önnur innyfli en lifur og hrogn væru hæf til manneldis, áður en hún tók ákvörðun.“

Þar sem „ákvæðið girðir fyrir notkun innyfla, annarra en lifra og hrogna, bar að synja umsókn kæranda“, segir í úrskurði ráðuneytisins.

Bíða þarf breyttra reglna
Niðurstaða ráðuneytisins í máli Haustaks er nánast orðrétt sú sama og niðurstaðan í máli Ramma, en að auki nefnir ráðuneytið að Haustak hafi bent á „að með framþróun í vinnsluaðferðum getur aðferð sem áður taldis óhæf til manneldis, orðið hæf til manneldis.“

Ráðuneytið tekur fram að í umræddri reglugerð sé að finna heimild til að uppfæra ákvæði hennar að teknu tilliti til „meðal annars tækniframfara og raunhæfra afleiðinga þeirra og væntinga neytenda með tilliti til samsetningar matvæla, vísindalegrar ráðgjafar og örverufræðilegra viðmiðana“.

Því sé ekki loku fyrir það skotið að í framtíðinni verði viðauka reglugerðarinnar breytt „þannig að heimilt verði að vinna afurðir til manneldis úr aukaafurðum dýra.“

Þangað til formleg breyting verður gerð á ákvæðum reglurgerðarinnar fáist slík heimild samt ekki.

Önnur túlkun í Noregi
Þóra Ýr, gæðastjóri Ramma hf, segir hins vegar öðru vísi tekið á málum í Noregi. Þar hafa nokkrir frystitogarar fengið leyfi til að vinna matvæli, ætluð til manneldis, úr slógi.

„Noregur notar sömu reglugerð og við, en Matvælastofnun hér túlkar reglugerðina á annan hátt en í Noregi,“ segir Þóra Ýr.

„Þar eru skip eins og Sólberg sem eru með samskonar mjöl- og lýsisframleiðslulínu. Norsku skipin fá matvælavottun fyrir ekki bara lýsi heldur líka mjöl, sem framleitt er úr sama hráefni, enda er þessi framleiðsluafurð meðhöndluð og unnin skv. ströngum kröfum matvælaframleiðslu líkt og um borð í Sólbergi“.

Á vef norska matvælaeftirlitsins, Mattilsynet, má sjá að í vinnsluleyfi sem stofnunin hefur gefið út til nokkurra frystitogara er vísað í sömu reglugerð Evrópusambandsins, númer 853/2004.

Erlingur Guðleifsson í Héðni, sem hefur verið í samskiptum við Ramma út af þessu máli, sendi fyrirspurn til Mattilsynet, og í svarinu segir að í Noregi sé ekki litið á það sem neitt vandamál þótt innyfli séu notuð sem hráefni í matvælaframleiðslu

„Við teljum þetta vera í samræmi við þá löggjöf sem við er að eiga,“ segir í svarinu. „Svo framarlega sem allt efnið er allan tímann meðhöndlað eins og það sé ætlað til manneldis, þá er þetta ekki vandamál fyrir okkur.“