mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Regnbogasilungur í sókn

22. febrúar 2013 kl. 09:14

Kristinn Björgvinsson, eigandi Strumpsins.

Dýrfiskur stefnir að um 2 þúsund tonna framleiðslu á næstu 2 til 3 árum

 

Dýrfiskur slátraði um 400 tonnum að regnbogasilungi á síðasta ári og stefnt er að því að framleiðslan verði komin í um 2 þúsund tonn á næstu 2 til 3 árum. Sótt hefur verið um 2 þúsund tonna leyfi til viðbótar í Dýrafirði. Silungurinn er fullunninn á Flateyri.

Mikil uppbygging er í fiskeldi á Vestfjörðum og koma nokkur eldisfyrirtæki þar við sögu. Eitt þeirra er Dýrfiskur hf. sem er með starfsemi í Tálknafirði, Dýrafirði og Önundarfirði. Dýrfiskur sérhæfir sig í sjókvíaeldi á regnbogasilungi. Fyrstu rsilungarnir voru settir í sjókvíar í Dýrafirði árið 2008.

Starfsemi Dýrfisks einskorðast ekki við eldið sjálft. Dýrfiskur starfrækir klakstöð og seiðaeldi fyrir botni Tálknafjarðar. Fyrirtækið er með 13 sjókvíar í Dýrafirði en einnig voru seiði sett út í sjókvíar í Önundarfirði í tilraunaskyni í lok síðasta árs. Það tekur silunginn um eitt og hálft til tvö ár að ná sláturstærð sem er 3 til 4 kíló. Eftir slátrun er silungurinn fluttur til Flateyrar til vinnslu. Megnið af framleiðslunni fer flakað og fryst inn á markaði í Evrópu, til kaupenda sem reykja silunginn, en lítilsháttar er flutt út af ferskum silungi mest til sushi-framleiðslu bæði í Evrópu og á Bandaríkjamarkaði.

Alls starfa á fimmta tug manna í heildarferlinu, þar af um 30 manns í vinnslunni á Flateyri en þar er einnig unninn villtur fiskur.